föstudagur, apríl 30, 2004

Efnafræðiskýrslan er ekki alveg tilbúin.
Í dag var síðasti (venjulegi) skóladagurinn í rúmlega þrjá mánuði ef ekki næstum fjóra. Ég mætti of seint í efnafræði en þar fengum við að sjá hvað vetnisperoxíð gerir við lifrabita og öfugt, mikil froða, hiti og ekki falleg lifur. Franska var fín eins og venjulega. Í stærðfræði teiknaði ég svo Afríku, Evrópu og Asíu. Afríka var kannski heldur lítil. Gatið fór í lestur á New Scientist upp á bókasafni. Eftir ensku sem var búin snemma prentaði ég út próf meðan ég beið eftir Kömmu og Pabba sem voru bæði farin heim.
Áðan var ég svo á sinfóníutónleikum þar sem uppáhalds tónverkið mitt, 9. Sinfónía Beethovens var spiluð. Þarna var ég í félagsskap helstu menningarvita landsins og forsetans. Þegar hann kom inn stóðu svo allir upp fyrir honum nema konan fyrir framan mig svo heyrði ég karlinn hennar tala eitthvað um virðingu fyrir embættinu. Ég ætla ekki að verða forseti ég myndi örugglega fara hjá mér. Sinfónían var frábær. Fyrsti og annar kaflinn voru mikilfenglegir, sérstaklega gaman að fylgjast með fiðlunum og "knéfiðlunum" í öðrum kafla. Þriðji kaflinn var rólegri en fallegur og svo kom náttúrulega fjórði kaflinn sem er ótrúlegur. Stefið er svo rosalega flott, byrjar ofurlágt en verður svo ótrúlega mikilfenglegt enda táraðist mamma. Svo kemur kórinn og það er bara frábært. Verst ég hef kannski hlustað á hana svo oft, ég fékk ekki gæsahúð eins og í fyrsta skipti.
|

fimmtudagur, apríl 29, 2004

Síðustu dagar hafa sokkið ofan í hyldýpi félagsfræðiritgerðarinnar minnar og fleiri verkefna. Ekki það að þau væru ekki skemmtileg en skilafresturinn var hinsvegar frekar leiðinlegur, þá er kannski hægt að segja að ég sé leiðinlegur því þetta var eiginlega allt mér að kenna eða bara þessum fjandans vinum sem maður neyðist alltaf til að hitta.
Ég gerði kvikmyndaverkefni í sögu úr myndinni Pirates of Silicon Valley sem er annsi söguleg miðað við að hún gerist fyrir svona 30-20 árum síðan hún fjallaði um gaurana sem bjuggu til fyrstu einkatölvurnar og dót tengt þeim semsagt Bill Gates og Steve Jobs. Það góða við það er að þegar ég var beðinn um að skoða umsagnir um myndina á netinu fór ég bara inn á heimasíðu Steve Wozniak þar sem hann kommentar á það hvernig honum og hinum persónunum ásamt staðreyndunum, var lýst. Gaman að sjá hvernig Bill Gates varð ríkasti maður í heim (með því að stela frá Apple því sem þeir stálu frá Xerox).
Félagsfræðiritgerðin var um mannfjöldaþróun heimsins á næstu 300 árum sem er annsi spennandi (víst) þá verða lífslíkurnar í þróuðu löndunum komnar yfir 100 ár. Kamma gagnrýndi ritgerðina, það var svosem rétt hjá henni (er ég hrokafullur? Kannski ég stofni nýjan raðbrandara af fordæmi Jóa) vona bara að Stebbi Karls fatti öll orðin sem ég bjó til með pabba (það vantar stundum svolítið af orðum í íslensku, sérstaklega í lýðfræði).
Ég held svo að ég hafi sofið og borðað í vikunni en það er allt í móki.
|

mánudagur, apríl 26, 2004

Þetta er það næsta sem ég komst að "fear of being proved wrong":
Catagelophobia- Fear of being ridiculed

Sumardaginum fyrsta hefði ég átt að eyða í lærdóm en í staðin fór ég til Jóa og spilaði Hringadróttinssöguspilið sem gekk illa því við gleymdum einni reglunni. Þegar við föttuðum það töpuðum við samt því ég stokkaði öll verstu spilin efst í bunkann sem við áttum að draga úr.
Á föstudaginn var lítið að gera í skólanum því efnafræði í fyrsta tíma féll niður og stærðfræðin líka vegna dimmisjóns (Kamma ef þetta er vitlaust veistu lykilorðið mitt), það var langt og eins og síðast einkenndist það af 80's tónlist og lélegum dansatriðum sem er ágætt fyrst en er orðið leiðinlegt eftir 1,5 klukkutíma. Um kvöldið var spilakvöld, en vegna leiða Jóa á Risk neyddumst við Palli og Ernir til að hittast fyrr og spila það áður en Jói og Hjálmar kæmu, Palli vann. Svo komu þeir og við spiluðum Partý & Co en Hjálmar var eitthvað, man ekki hvað. Svo spiluðum við Catan sem Ernir vann.
Daginn eftir byrjaði ég á því að vinna í félagsfræðiritgerðinni minn en seinni hlutanum var eytt í félagsskap Dópista í afmælinu hans Palla. Við horfðum á Hero sem er kínversk mynd um sameiningu Kína í eitt ríki (æ já svo er eitthvað um bardaga, hetjur, ást og svoleiðis vitleysu). Ég kynnti mér sagnfræðilegar staðreyndir á bak við myndina þegar ég kom heim en fyrst spilaði ég hættuspil í fjóra klukkutíma vegna þess að gagnkvæma skemmdarverk og óvild hindraði alla í að ná nokkrum árangri fyrr en við "leyfðum" afmælisbarninu að vinna. Í dag lærði ég og náði næstum að klára söguverkefnin (hjúff núna þarf ég bara að gera efnafræðiskýrslu og félagsfræðiritgerð).
|

fimmtudagur, apríl 22, 2004

Skoðið Þetta http://wiktionary.org/wiki/Sesquipedalophobia þar stendur að sesquipedalophobia og Hippopotomonstrosesquippedaliophobia séu samheiti. Kamma var nefnilega að kvarta yfir því að sesquipedalophobia væri vitlaust og sagði að það væri "fear of using long words" en þetta eru samheiti og því ætti Kamma frekar að hafa sagt að það væri flottara að hafa Hippopotomonstrosesquippedaliophobia (sem það vissulega er en ég sá þetta ekki strax á phobiulistanum) því það er lengra, í staðinn fyrir segja að það væri vitlaust (sorry Kamma en ég varð svolítið reiður). En það er flottara svo hér hafiði það.

Hippopotomonstrosesquippedaliophobia- Fear of long words.

Þetta er ekki eina baráttan sem ég hef átt í í dag því í dag voru klámmyndirnar hengdar aftur upp á töfluna fyrir ofan borðið okkar og ég neitaði að setjast við borðið fyrr en þær færu því ég hafði enga löngun til að sitja á borði sem mér leið illa á (þessvegna stóð ég) en Kamma sem var sammála mér snéri myndinni við og þökk sé henni gat ég sest aftur.
Þessi dagur hefur því litast af þrjóskulegri baráttu minni fyrir smávægilegum hlutum sem skipta mig engu síður miklu máli. Semsagt að ég hefði rétt fyrir mér og að nakið fólk með getnaðarlimi á höfðinu og að pissa á hvort annað væri óviðeigandi myndefni til að hengja upp á töflu þar sem maður neyðist til að horfa á þetta. En ég tel að réttlætinu hafi verið náð fram fyrir mína parta og þessvegna ætla ég að skrifa bók um þennan dag sem mun heita "baraátta mín" (vinsamleast ekki þýða það á þýsku).
Svo eftir skóla fór ég heim með Jóa og við ásamt Palla, Erni, Núma og Hjálmari tókum Kill Bill vol. 1 á leigu og fórum svo á Kill Bill vol. 2 í laugarásbíó. Þær voru góðar en ég er í hálfgerðu sjokki svo ég hef ekki alveg áttað mig á þeim enn.
|

þriðjudagur, apríl 20, 2004

Sesquipedalophobia- Fear of long words.
Þrátt fyrir gífurlegt magna af verkefnum og heimanámi (sem betur fer flest í sögu og félagsfræði) er frekar lítið af skólatímum í þessari viku. Í dag féll niður síðast tíminn minn sem var stærðfræði og þar sem ég var í gati á undan honum var ég búinn klukkan tólf. Svo er sumardagurinn fyrsti á fimmtudaginn og á föstudag fellur efnafræði sem er fyrsti tíminn niður og miðtíminn sem er stærðfræði vegna dimisjóns.
Í dag fór pabbi með mig á stórt malarplan með nokkrum gámum niðri við sundahöfn og leyfði mér að keyra aðeins. Það gekk frekar brösulega að starta bílnum en eftir nokkra tugi tilrauna var mér farið að ganga mun betur (hinsvegar þarf bílinn að fara á verkstæði) og ég held ég hafi komist upp á lagið með kúplinguna núna.
Annars hef ég annsi fátt gert síðustu daga nema sofa, læra, borða og gera ekki neitt.
|

mánudagur, apríl 19, 2004

Ég fór í efnafræði á föstudaginn þar sem við gerðum tilraun til að komast að hraða efnahvarfa við mismunandi hita sem venjulega ætti að vera meiri við hærri hita en endurteknar tilraunir allra hópanna sýndu fram á hið gagnstæða sem þýðir að annaðhvort höfum við uppgötvað efnahvarf sem hlýðir ekki hinum venjubundnu reglum efnafræðinnar og ættum að fá nóbelinn eða þá að þetta var vitlaust hjá okkur öllum (það gætu verið aðrir möguleikar en þeir eru ekki nógu dramatískir til að það sé hægt að birta þá hér).
Á laugardagskvöldið spilaði ég svo Catan og Monopoly við Erni, Hjálmar og Jóa en Catan er ansi skemmtilegt spil jafnvel þó ég hafi aldrei unnið.
Eftir þetta horfði ég svo á lion king einu myndina sem ég hef farið að gráta á í bíó (ég var reyndar fimm ára) með ensku tali en þegar ég var lítill horfði ég á hana svona 50 sinnum (með íslensku tali) og hún hefur greinilega síast eitthvað inn í undirmeðvitundina því ég gat raulað með öllum lögunum og vissi hvað persónurnar myndu segja á eftir (reyndar á vitlausu tungumáli). Hún er en alveg jafn skemmtileg og það er fyndið að heyra James Earl Jones sem Mufasa segja við Simba "You are my son...." því maður fær svona "bíddu nú við ég hef heyrt þetta áður einhverntíman".
Núna er ég svo að reyna að gera vinnubókina í sögu, og talandi um sögu ég fékk 10 í söguprófinu sem ég fór í á föstudaginn.
|

miðvikudagur, apríl 14, 2004

Ef þið farið inn á linkinn "ef þið viljið spjalla við mig um star trek" sjáiði að ég er ekki eini íslendingurinn sem stundar þessa síðu. Jæja fyrsti skóladagurinn eftir páska var í dag. Hann var fínn nema kannski þegar ég fékk hjartaáfall vegna ofreynslu í íþróttum en það var nú eiginlega bara hressandi. Félagsfræðiritgerðin er komin á nokkuð skrið en ég er næstum því búinn með innganginn en það virðist vera allt í lagi kennarans míns vegna. Svo eru það bara þessi söguverkefni og stærðfræði sem ég þarf að gera fyrir prófin. Eftir prófin fer ég svo til svíþjóðar með bróður mínum og kem aftur heim með systur minni.
|

þriðjudagur, apríl 13, 2004

Ég hef ekki gert neitt af því sem ég ætlaði mér að gera um páskana nema borða (páskaegg). Ritgerðin í félagsfræði verkefnin í sögu og lesturinn fyrir vorprófin er enn eftir. Síðan síðast hef ég farið í nokur matarboð borðað kíló af súkkulaði og gert ekki neitt. Jólafríið fór líka frekar illa með mig og ég kenni því um slaka framistöðu mína á þessari önn og ég má ekki við því að verða latur núna.

Ótrúlegt þessi félög eiga þá eitthvað sameiginlegt:
Fjölmenningarráð
Félag kvenna af erlendum uppruna
Frjálshyggjufélagið
Deiglan.com
Múrinn.is
Pólitík.is
Samband ungra framsóknarmanna
Sellan.is
Skoðun.is
Ung frjálslynd
Ungir jafnaðarmenn
Ungir sjálfstæðismenn í Reykjavík
Ungir vinstri grænir
Vaka


|

fimmtudagur, apríl 08, 2004

Það er góð ástæða fyrir því að ég hef ekki bloggað í ósæmilega langan tíma. Það hefur annsi lítið gerst í páskafríinu. Ég hefði átt að vera duglegur og gera félagsfræðiritgerð, söguverkefni og lesa undir vorprófin plús það að pabbi sagði mér að lesa íslenska skáldsögu sem hann þyrfti að samþykkja en ég hef enn ekki gert neitt af þessu. Ég fór til Ernis á laugardaginn sá núll fermetra herbergið hans og spilaði hættuspil, monopoly og trivial pursuit við hann Jóa og Palla og eins og þið vitið líklega öll núna vann hann öll spilin og trivial reyndar með Jóa. Síðan þá hef ég verið upptekinn við að drepa Persa í Civilization III conquests og að lesa um fall þriðja ríkisins í þriðja sinn í ríkulega myndskreytum (allar myndirnar eru reyndar svarthvítar) bókaflokki um seinni heimstyrjöldina. Núna var ég að koma úr matarboði frá foreldrum Helga Hrafns fyrrverandi liðstjóra MR liðsins. Þar var ég neyddur í hlutverk spunameistara í aski yggdrasils hlutverkaspilinu af yngri bræðrum hans og ég bjó til sniðugt ævintýri en það spillti kannski fyrir að ég hafði 10 mínútur til að undirbúa mig og ég kann ekki reglurnar í spilinu nógu vel til að geta beðið um teningaköst á réttum stöðum. Þannig að ég sagði tildæmis: svo sjáiði tröll og kastið núna upp á....... æ ég veit ekki hverju þið drepið það bara með boganum ykkar og finnið stóran fjársjóð. Á morgun er ég svo búinn að lofa að hitta Kömmu og þá fæ ég víst að sjá afmælisgjöfina mína, eða hluta af henni.
|

föstudagur, apríl 02, 2004

Nei Nei Nei þetta mátti ekki gerast. Verzló má ekki vinna bæði Morfís og Gettu Betur en það gerðist.
Ekki að þær ættu það ekki skilið bara það að þeir máttu það ekki skamm. Jæja úff það er samt næstum því betra en að MR hefði unnið Gettu Betur aftur. Til hamingju býst ég við.
|

fimmtudagur, apríl 01, 2004

Vegna einhverra kvartanna frá einhverjum MRingum út í bæ hef ég neyðst til að fjarlæga þetta saklausa grín af síðunni minni. Þið hafið bara ekki húmor.
Ég lærði aðeins undir félagsfræðipróf í gær en svo datt ég ofán í bókina Felidae sem ég fékk lánaða hjá Magga og fjallar um kött sem leysir morðmál. Þrátt fyrir lýsinguna er þetta rosalega spennandi og skemmtileg bók en það hafði þær miður góðu afleiððingar að ég vakti alla nóttina við að lesa hana. Í daginn var ég eiginlega og þreyttur til að vera þreyttur svo ég lærði bara undir félagsfræði. Íslenska féll niður svo ég var ekki í tíma fyrr en klukkan tvö og ég notaði tíman til að læra undir prófið meðan nammiflóð kosningabaráttunar hélt áfram. Mér gekk ágætlega á prófinu en gæti hafa gert eina krossaspurningu vitlausa. Svo lagði ég mig heima og núna var ég að koma af páskabingói Laugarnesskóla með bróður mínum við keyptum fimm spjöld og hann vann (bara) bol, en hann var glaður.
|