laugardagur, júní 26, 2004

Ég er ekki alveg viss um hvort ég er fórnarlamb einhvers samsæris eða sjálfsblekkingar?
Kamma talaði um að Begga væri hugsanlega ein heima á laugardag og nefndi eitthvað um að hún myndi hugsanlega bjóða einhverjum heim til sín. Leitandi mér að einhverju til að gera í kvöld spurði ég Beggu á MSN hvort hún ætlaði að gera eitthvað. Fyrst kom já og svo gestalisti sem á stóð meðal annarra nafna: Gutti og Ernir. Svo þegar ég hringdi í Kömmu til að spyrja hana hvort hún færi kom hún alveg af fjöllum og rétti síman til Beggu sem sagði bara Ha? Hún hafði þá ekki verið á MSN heldur einhver annar á hennar nafni.
Er ég fórnarlamb illgjarnra ytri afla eða sjálfsblekkingar sem bjó til ímyndað teiti úr óstaðfestum orðrómum? Er þetta kannski allt bara rugl í mér. En í staðinn fyrir að mæta í teboð í undralandi hjá brjálaða hattaranum ætla ég að hitta Erni og hugsanlega einhverja fleiri og nördast eitthvað.
Þessi færsla er skrifuð í fartölvu föður míns því eftir að ég setti upp XP í tölvunni minni kemst ég ekki á netið í henni.
|

laugardagur, júní 19, 2004

Pabbi og mamma eru nú að spóka sig á Írlandi undir leiðsögn uppáhalds kennara Jóa og ýmsum fleirum. Pabbi fór á miðvikudaginn ef minnið svíkur mig ekki. Við systkinin höfum verið ein heima síðan þá.
Á miðvikudagskvöldið fór ég til Baldurs og hitti Mána í fyrsta skipti síðan í maí og það var gaman venju samkvæmt.
Svo kom þjóðhátíðardagur íslendinga með sólskini í fyrsta skipti síðan ég man eftir mér. Við systkinin fórum niður í bæ en fundum ekkert að gera svo við löbbuðum bara um. Þegar ég var lítill fannst mér aldrei mjög gaman á 17. júní því mér leiddist að labba í vondu veðri leitandi að einhverju skemmtilegu á dagskránni, sem var sjaldnast. Þar sem við fundum ekkert keyptum við sænska snúða og fórum til vinkonu Þóru til að baka þá. Svo fórum við til afa á borgarspítalann. Heima bakaði ég svo pítsu handa okkur bræðrunum meðan systir okkar var út á lífinu.
Svo kom erfiður dagur á póstinum en mér var bjargað frá því að vera til klukkan átta þar sem ég þurfti að mæta í afmæli þá. Þetta var afmælið hennar Kömmu. Ernir skutlaði mér í afmælið undir handleiðslu þar sem hann var boðinn líka. Fyrst vorum við svolítið týndir en þegar ég kom inn í stofu byrjaði ég að lenda inn í nokkrum samtölum. Svo kom Gunnar. Við og Ernir spjölluðum heillengi við hann um svo háfleiga hluti að jafnvel Erni fannst hann vera skilinn útundan. Á leiðinni heim í Síðumúlanum hittum við Ernir svo gamla skólafélaga og áttum gott spjall við þá. Svo héldum við áfram heim á leið og áður en ég vissi af mér var ég næstum kominn til Ernis.
Á laugardaginn hitti ég Baldur og Arnar Braga og við spiluðum risk. Baldur segist ætla að taka sér tveggja mánaða frí frá því spili. Sunnudaginn eftir hitti ég svo Mána aftur.
Þessi vika hefur verið auðveldari en flestar aðrar (stundum er ég búinn á réttum tíma!!!) og við systkinin höfum verið ein heima að slaka á. Svo fékk Þóra Ælusýki. Vegna skorts á heimilishaldi af þessum sökum neyddist ég til að kaupa mér nesti á Beigluhúsinu hinu meginn við götuna. Í dag ákvað Kamma að koma með og ég keypti heitt súkkulaði fyrir lán frá henni. Svo hellti ég því öllu yfir mig þegar ég ætlaði að taka fyrsta sopann og var heppinn að skaðbrenna ekki á viðkvæmum stöðum og þegar kakóið kólnaði varð óþægilegt að vera í buxunum. Fullkominn byrjun á deginum, plús það að ég þurfti að bera út í allt hverfið mitt. En svo fórum við í Keilu með sumarafleysingabréfberunum og ég tapaði ekki og var hærri en Jói í fyrra skiptið. Gott á hann því hann og Bippi voru búnir að gefa sér að ég væri lélegur í keilu. Svo vann hann næsta leik með yfirburðum (Bitur).
En frammundan er skemmtileg helgi og á sunnudaginn koma foreldrarnir heim frá úglöndum.
|

sunnudagur, júní 13, 2004

Yfirmaðurinn ætlar að endurskoða vinnuálgið. Kannski það að ég var að vinna til klukkan sjö á fimmtudag og föstudag þrátt fyrir að fá hjálp við að flokka póstinn báða dagana og hjálp frá Hrafnhildi sem vinnur með mér við að bera út póstinn á föstudag, hafi haft eitthvað að segja.
Á síaðsta föstudagskvöldi fór ég til Baldurs og horfði á Amazon Women of the moon sem er byggð upp á svipaðan hátt og The meaning of life með Monthy Python. Semsagt fullt af stuttum atriðum sem tengjast á einhvern hátt. Þetta var hinsvegar frekar subbuleg og Amerísk mynd með súrum amerískum húmor frá níunda áratugnum. Myndin var ekki alslæm en ef ég þarf að velja á milli súrs Amerísks húmors frá níunda áratugnum og súrs bresks húmors frá níunda áratugnum vel ég þann breska. Svo átti ég gott samtal við Arnar Baldur og Guggu eftir myndina.
Í gær fór ég svo í matarboð til hjónana Einars stærðfræði- og eðlisfræðikennara í MH og Boggu sem er líffræðikennari í MH. Eftir það var nördakvöld með Erni og Palla. Við byrjuðum á að spila risk með alvöru reglunum sem eru eiginlega mun skemmtilegri en ruglreglurnar mínar. Ég vann með því að taka fyrst Evrópu loka Erni inni í Norður-Ameríku og taka svo Afríku og Ástralíu. Svo fórum við í einhvern "turn based strategy game" Heros III held ég og eftir það fékk ég að sjá EVE hjá Palla. Svo fór ég ekki að sofa fyrr en fimm um nóttina og vaknaði svo tólf tímum seinna því Mamma er í Berlín Pabbi og Steinar í Vík og Þóra var í giftingu úti á landi.
|

fimmtudagur, júní 10, 2004

Það eina sem ég hef gert síðustu dagana er að vinna svo ég blogga bara um það.
Á mánudaginn var kvartað yfir mér af íbúa Sogavegs 103 vegna þess að hann hafði 1) fengið póstinn sinn of seint, sem ég hef ekkert að gera með (að minnsta kosti man ég ekki eftir því að hafa geymt bréfin á þetta heimilisfang af einskærri illmennsku). 2) af því að hann hafði fengið póst sem hann átti ekki að fá. Ég held að ég viti nú hver hafi kvartað vegna þess að hún stoppaði mig í dag til að kvarta persónulega en hún var þó kurteis. Hún er eina manneskjan í húsinu sem er ekki með neitt merkt og glætan að ég ætli að muna hvað hún heitir (verst að ég geri það) en það var reyndar rétt hjá henni að ég á ekki að henda afgangnum af póstinum úr húsinu inn til hennar bara vegna þess að það er engin vísbending um hvað hún heitir á húsinu heldur á ég að geyma póstinn og endursenda hann svo eftir viku ef hún merkir hurðina ekki almennilega. Jæja það er hennar mál, í staðinn fyrir að fá meiri póst en hún vill fær hún bráðum engan póst (Jói leiðréttir mig ef ég er að brjóta einhverjar reglugerðir með þessu stríði mínu gegn lélegum merkingum).
Verst að ég hef varla rétt á því að kvarta því að ég er ekki alveg að standa mig í vinnunni. Ég er alltaf að vinna til klukkan sex eða sjö þrátt fyrir að ég haldi að ég sé ekkert að slóra, ég trúi því a.m.k. ekki að eitthvað slór í mér nái að fylla upp í þetta tveggja til þriggja tíma yfirvinnubil. Svo klúðraði ég svolitlu í dag því ég gleymdi að bera út lítið dreifibréf frá orkuveitunni um hvenær rafmagnið yrði tekið af hverfinu, í dag. Besta útkoman er sú að ég ber það út á morgun og engin tekur eftir því að tilkynningin komi degi of seint. Versta útkoma er sú að rafmagnið verði tekið af hverfinu í nótt eða á morgun áður en ég næ að bera út bréfið, fólk missir mikilvæg óvistuð gögn út af tölvunni eða kemur of seint í vinnuna vegna þess að vekjaraklukkan hringdi ekki, kvörtunum byrjar að rigna yfir póstinn og ég verð rekinn í annarri vikunni minni. Held samt (og vona) að orkuveitan vari fólk ekki við með eins dags fyrirvara.
Fyrir utan þetta hef ég ekkert gert í vikunni. Ég kláraði fimmtu Harry Potter bókina í annað skipti í gær og í dag borðaði ég pítsu yfir Discovery.
|

sunnudagur, júní 06, 2004

Afsakið langa þögn.
Blablabla fjölmiðlafrumvarpinu var hafnað blablabla Davíð er fúll blablabla við búum við spillta ríkisstjórn blablabla eini maðurinn sem hefur áhuga á þessu fyrir utan mig er Ernir svo ég er að pæla í því að búa bara til aðra bloggsíðu þar sem ég get haldið einræður um pólitík án þess að eiga það á hættu að ópólitískari vinir mínir falli í dauðadá.
Ég er byrjaður að vinna hjá póstinum sem er fínt því að Kamma og Jói eru líka að vinna þar ég veit reyndar ekki með Jóa því samanburður við hann getur verið svolítið pirrandi t.d. þegar hann klárar þrjú hverfi á styttri tíma en það tekur mig að klára tvö. En talandi um það þá, þrátt fyrir að þetta sé skemmtileg vinna sem býður upp á mikla útivist, skemmtilega vinnufélaga og græna kortið, er ég orðinn svolítið hræddur. Ástæðan fyrir því er sú að síðustu viku hef ég aldrei verið búinn að vinna fyrr en klukkan hálf sex þrátt fyrir að ég hafi deilt fyrsta hverfinu mín með konunni sem er að þjálfa mig. Jafnvel þó að ég verði fljótari með tímanum er ég hræddur um að sá ávinningur tapist þegar ég þarf að raða upp í og bera út í fyrra hverfið mitt einn næsta fimmtudag, ásamt því að það tekur þrjá tíma að bera út í seinna hverfið mitt sem ég hef þó alltaf tekið með hjálp Kömmu (takk Kamma) eða Birkis (Já hann er líka að vinna þarna). Þessi langi vinnudagur hefur raskað venjubundnu lífi mínu alvarlega ásamt því að ég hef "hangið" með vinum mínum eftir vinnu sem hefur en frekar stytt þann tíma sem ég eyði vennjulega í annað. Þetta er ekki beint slæmt því að vinir mínir eru skemmtilegt fólk (duh) og vinnan er með ágæt líka. Hinsvega hefur þetta eins og ég sagði áður dregið úr þeim tíma sem ég eyði venjulega í lestur, samveru með fjölskyldunni, tölvunni, lestur blaða, sjónvarpsáhorf og nördaleg áhugamál mín. það er sérstaklega alvarlegt því að ég hafði ætlað mér að stunda meiri lestur í sumar vegna drauma minna um að komast í gettu betur á næsta ári (og því að fyrir mér er frí ekki frí án aðgerðaleysis og áhyggjuleysis). Það lítur því út fyrir að ég verði að minnka við mig eða þróa frekar leiðir til tímasparnaðar. Langur vinnutími hefur þó einn kost MEIRI PENINGA MUHAHAHAHA. En já ég er ekki dæmigerður vinnualki svo nei.

Já svo fór ég á Harry Potter í vikunni og þeir sem þekkja ekki söguþráðinn nú þegar eru fífl (ef þið gerið það samt ekki þá skulið bara muna að ég meinti þetta ekki) svo mér er alveg sama þó ég eyðileggi þetta fyrir þeim. Þriðja bókin er uppáhalds bókin mín svo þessi mynd þurfti að vera annsi góð til að standast háar vonir mínar en hún var ekki fullnægjandi. Stór hluti af ástæðunni er reyndar óviðráðnalegur en það er að það vantar svo mikinn hluta bókarinnar. Allt skólaárið líður á þrjúkorteri og restin er svo lokakaflinn og tíminn fyrir skóla. Ég býst við að það sé erfit að koma svona bókum á tjaldið, hvernig ætli þeim gangi að koma 766 blaðsíðum fimmtu bókarinnar fyrir á rúmlega tveimur tímum. Svo fannst mér leikurinn hjá krökkunum ekki alveg nógu sannfærandi. Valið á Gary Oldman ío hlutverk Siriusa var sniðugt og þó að ég hafi aldrei séð eða heyrt minnst á leikarann sem lék Lupin stóð hann sig vel. Svo er náttúrulega fullt af góðum leikurum sem koma því miður ekki nógu mikið fyrir í myndinni eins og Alan Rickman sem er ótrúlega flottur í hlutverki Snape og Maggie Smith í hlutverki McGonagall. En yndirnar eru bara aukaatriði þó að þær hafi hingað til svosem alveg verið 800 kallsins virði. Bækurnar eru bestar.
Jæja nú er ég búinn að röfla allt of lengi og það eru örugglega allir hættir að lesa.
|