sunnudagur, maí 14, 2006

Jæja fallegu dagarnir voru vegna pólsks kolaryks. Kannski við fáum fleiri svoleiðis eftir að álverin verða orðin fleiri, svifrikið er líklega ekki nóg.
Skrifandi um umhverfismál þá held ég að ég ætli að kjósa Vinstri-græna í kosningunum, þó ég sé reyndar í öðrum flokki. Ég ætla ekki að vera með mikinn áróður eins og Jói, eða maðurinn sem hringdi í mig frá Sjálfstæðisflokknum. Þó vildi ég frekar að þið hlustuðuð á Jóa en manninn eða konuna sem hefur eða mun hringja í ykkur. Reyndar var maðurinn sem hringdi í mig ekkert ókurteis, hann benti mér aðallega á heimasíðuna þeirra.
Á morgun ætla ég svo að fara í bæinn til að skoða kosningaskrifstofur og sníkja eitthvað. Um kvöldið fer ég svo á tónleika með pólska harmoníkubandinu Motion Trio með Baldri. Þeir eru víst frá helsta iðnaðarhéraði Póllands.
|

mánudagur, maí 08, 2006

Síðustu dagar hafa verið ótrúlega fallegir. Í dag var meira að segja hitamistur eins og í (sumum) útlöndum. Fyrir vikið var reyndar ekki eins heitt og í gær en það var samt fallegt. Núna áðan fór ég t.d. út og þá var himininn fallega blár og bleikur og sólin var eins og eldrauður fullkominn hringur. Birtan gerði það að verkum að öll húsin urðu örlítið bleik og af einhverjum ástæðum heyrðist umferðarniðurinn miklu skýrar en venjulega svo það var eins og það væri foss nálægt. Til að kóróna allt var vorlykt í loftinu sem meira að segja ég með mitt nef gat fundið.
Auðvitað þarf ég svo að vera á kafi í próflestri núna.
|

þriðjudagur, maí 02, 2006

Í dag, eða réttara sagt í gær, er 1. maí, verkalýðsdagurinn. Dagurinn þegar launafólk flykkist út á göturnar með rauða fána til þess að krefjast réttar síns, allavega í gamla daga. Núna hefur þessi dagur kannski minni þýðingu fyrir fólk enda eru 70% vinnuaflsins í þjónustugeiranum og flestir telja sig hafa það frekar gott. Þó að launakjör séu kannski betri nú en fyrir 90 árum síðan þurfum við enn að vera á varðbergi. Reyndar gerðist ég ekki svo duglegur að taka þátt í hátíðahöldunum enda lauk þeim líklega áður en ég vaknaði. Ég hef þó einu sinni gengið í kröfugöngunni, meira að segja með grænan fána sem átti víst að vekja athygli á umhverfisvernd. Pabbi velti því þó fyrir sér hvort hann gæti ekki staðið fyrir framsóknarflokkinn líka.
Ég fletti fyrsta maí upp á wikipediu og komst að því að hann er ekki haldinn hátíðlegur í Bandaríkjunum en í staðinn er haldið upp á lagadaginn þar sem fólk á að minnast þess mikilvæga hlutverks sem lögin gegna í samfélaginu. Þeirra verkalýðsdagur er haldinn fyrsta mánudag septembers (svipað og Sigurður Kári vill) og honum er ekki fagnað með kröfugöngum heldur afslöppun og lautarferðum. Kannski það segi eitthvað um stöðu launþegaréttinda í Bandaríkjunum.
Þetta virðist líka vera óheppilegur dagur fyrir tónkskáld þar sem þau eiga það til að deyja á þessum degi. Khachaturian, Dvorak og frændi Bachs og nafni, sem einnig var tónkskáld, dóu allir á þessum degi.

Tónlist
The Fiery Furnaces: Blueberry Boat (en það er akkúrat minnst á verkalýðsdaginn í titillaginu)
|