miðvikudagur, ágúst 31, 2005

Ég er feginn að við sóttum ekki um embætti auglýsingastýra því að við eyddum tveimur dögum bara í það að mála nokkur spjöld. Við notuðum þau svo núna áðan í litlu kynningunni okkar sem var frekar vel heppnuð a.m.k. kom hún út eins og við vildum. Fyrst hló fólk aðeins að talblöðrunum okkar og svo setti Kamma plötuspilarann forna sem við fengum lánaðan í gang og við stóðum þarna í tvær mínútur meðan fólk velti því fyrir sér hvort að við værum byrjuð eða ekki, sérstaklega stjórnin held ég. Svo enduðum við þetta með smá tali. Þetta var allavega nógu skrítið.

Á mánudaginn keypti ég "The Life and Times of Scrooge McDuck" eða ævisögu Jóakims aðalandar eftir Don Rosa í Nexus. Það er nýtt fyrir mér að lesa þetta rúmlega 200 blaðsíðna meistaraverk í heild sinni og á ensku. Þó að íslensku þýðingarnar séu góðar er alltaf betra að lesa það sem höfundurinn skrifaði sjálfur. Það er ekki það eina nýja því að í síðasta kaflann bætti hann við þremur blaðsíðum af efni. Þessi saga spannar fyrstu 80 árin í lífi Jóakims (1867-1947) og segir frá því hvernig hann ferðast um heiminn í 20 ár áður en hann verður ríkur og svo hvernig honum áskotanaðist auður sinn. Það skemmtilega við þessa sögu er ekki bara ævintýrin heldur einning hvernig auðurinn gerir hann sífellt bitrari og gráðugri og hrekur hann út í illvirki, gagnstætt sínum fyrrum háu hugsjónum, og fjölskylduna frá honum. Sagan endar svo þegar hann kynnist Andrési og ungunum og eftir það gerast allar nútíma (Don Rosa og Carl Barks) sögurnar um Jóakim frænda. Það hvað Andrés og Jóakim eru breiskir hefur líka alltaf heillað mig miklu meira en hinn fullkomni og persónuleikalitli Mikki Mús, þó svo að ég hafi ekkert á móti honum. Ævisagan er svo full af vísunum í átrúnaðargoð Don Rosa og skapara Jóakims, Carl Barks.
|

mánudagur, ágúst 29, 2005

Ég sagði mig úr línulegri algebru og ég vonast til að mér takist að svindla mér inn í efnafræði. Ef ekki verður þetta bara auðveld önn. Um leið og ég gerði þetta allt var ég að sækja um stofu fyrir gettu betur inntökuprófið svo að ég eyddi hálfum föstudeginum á skrifstofunni. Núna þarf "bara" að (láta aðra) semja prófið og mála auglýsingu. Svo er busakynningin á miðvikudaginn og busadagurinn viku eftir það. Eftir tvær vikur verðum við svo vonandi tilbúin að velja í lið og þá getum við byrjað að æfa.

Um helgina heimsótti ég veikan Baldur og horfði á "Finding Neverland" sem er skemmtileg og góð mynd sem manni líður vel af því að horfa á, öfugt við "Mystic River" sem ég horfði á með Kömmu og mömmu hennar, þó aðallega með mömmu hennar, en hún skilur mann eftir niðurbrotinn og vonsvikinn. Báðar eru samt gæða myndir sem ég mæli með en þó fyrir mismunandi aðstæður.
|

fimmtudagur, ágúst 25, 2005

Fáir virðast hafa séð nýja útlitið mitt, nema Jói.

Þriðja ár mitt í MH hófst á mánudaginn og nú er ég rúmlega hálfnaður, í önnum talið ekki einingafjölda. Núna tekur við lestur á Laxness, heimspekipælingar, franska og hugleiðingar um afstæði tíma og rúms. Ég sé til með línulegu algebruna en ég er hræddur við hana. Inn á milli kennslustunda er vinna á bókasafninu og seta á þeim tveimur borðum sem ég þekki fólk á. Bæði við gluggan svo það er framför. Norðurkjallari verður hinsvegar að bíða.

Mæli með Post Traumatic Stress Disorder með The Inconspicuously Drunken Somnambulists.

|

laugardagur, ágúst 20, 2005

Þá er ég kominn með nýtt útlit, jafnvel þó það sé staðlað, því ég var orðinn svolítið leiður á því gamla en ég á það samt inn á tölvunni minni svona til vara.

Í dag spilaði ég risk og tapaði. Ég hélt líka áfram með þriðju bókina í "Foundation" seríunni eftir Isaac Asimov en hún er vel skrifuð og spennandi þó að hún nái yfir mjög langt tímabil og margar aðalpersónur sem koma og fara. Þannig er serían eiginlega meira eins og saga tímabilsins sem hún gerist á, frekar en persónanna, jafnvel þó að höfundurinn staldri við hjá einni ákveðinni persónu, sem hann gerir að sögumanni fyrir það tímabil sem sá hluti sögunnar fjallar um, því það er greinilegt að það er eingöngu vegna þess að hún spilar stórt hlutverk í stærri sögunni og er því aðeins tól höfundarins til að segja söguna sem spannar margar aldir. Það er þá kannski ekki skrítið að mér finnist bækurnar skemmtilegar því ég hef dálæti á mannkynsögunni og atburðum hennar, kannski frekar en einstökum persónum.
|

fimmtudagur, ágúst 18, 2005

Ég ætlaði að vinna í sex vikur og taka mér eina í frí fyrir skólann en það frí varð óvart að tveggja vikna frí þar sem ég veiktist á mánudaginn fyrir viku og var frá vinnu alla vikuna. Ég fékk reyndar svolitla bakþanka yfir því að hafa ekki mætt síðasta dagin þar sem ég var aðeins hressari þá og það var gott veður.
Núna er ég hinsvegar búinn að ná mér og kominn í alvöru frí áður en skólinn byrjar. Ég hef svosem ekki gert neitt mikið nema helst tekið til í herberginu mínu en það var reyndar fjögurra daga verk enda vel gert. Ryklagið á sumum stöðum var líka orðið annski þykkt ásamt einhverjum torkennilegum skít í gluggakistunni minni sem líktist einna helst múrmulningi. Svo hef ég náttúrulega haldið áfram að horfa á góðar bíómyndir með góðum vinum og meira að segja gripið aðeins í Risk og Scrabble. Ein af þessum myndum var 2Ed Wood" sem fjallar um samnefndan leikstjóra sem er leikinn af Johnny Depp. Hann titlaður versti leikstjóri allra tíma og frægasta myndin hans "Plan 9 From Outer Space" ber þess merki. Það var sérstaklega gaman að sjá "Ed Wood" eftir að hafa séð Plan 9 og ég mæli með því að fólk sjái hana fyrst, þó ekki nema upp á húmorinn. Einning mæli ég með "Ray" en hún er einstaklega skemmtileg og með fínni tónlist líka.
Skólinn nálgast og á morgun fer ég að sækja stundartöfluna mína. Það verður spennandi að sjá með hverjum maður verður í tíma og götum, þó að ég ætli reyndar að reyna að fá vinnu hjá bókasafninu í einhverju af þeim. Svo hefst skólaárið og með því hefst undirbúningurinn fyrir Gettu betur og setan í mímisbrunni. Það þarf að halda inntökupróf, velja í lið, halda busakynningu og velja busa í ráðið og gera allt annað sem fylgir því að vera í stórfélginu. Vel á minnst ég þarf að tala við Jónas og Maríu áður en skólinn byrjar og hún fer út.
|