föstudagur, apríl 15, 2005

Der Untergang var frábær...
...en kannski örlítið of löng. Ég skil svosem að þeir vilji sýna allt sem gerðist enda hálfgert uppgjör við nasisman hjá þýskurunum. Sambandi þá gagnrýni að Hitler sé sýndur sem manneskja þá á hún alveg rétt á sér. Málið er bara að Hitler var manneskja svo það er best að sýna hann sem slíka en ekki sem eitthvað skrýmsli bara svo við getum haldið að viðbjóðurinn sem hann olli hafi ekki verið mannlegur. Hver myndi líka vilja horfa á mynd með Godzilla og King Kong í aðalhlutverki. Það væri að minnsta kosti ekki mikið talað í þeirri mynd.
Leikarinn fór á kostum sem Hitler og fall þriðja ríkisins og tilgangslaust dauðastríð þess var sýnt ótrúlega raunsætt. Sögulega held ég líka að myndin sé mjög nákvæm og lýsingin á veruleikafyrringu, samviskuleysi og skapsveiflum Hitlers undir lokin var fróðleg. Mjög áhrifamikil mynd en ekkert sérstaklega skemmtileg enda þyrfti mikinn (og siðblindan) grínista til að sýna þessa atburði í spaugilegu ljósi.
|

mánudagur, apríl 11, 2005

Eftir langa og stranga kosningaviku unnum við með 90,4 % atkvæða. Núna þarf bara að finna þá 48 sem ekki kusu okkur og eyða þeim.
Kosningavikan var skemmtileg og ég fékk nóg af nammi og ís og jafnvel kosningarnar sjálfar fóru bara þokkalega. Allir sem ég kaus hlutu kosningu nema Zúúúber en Bómull mun örugglega standa sig vel líka. Svo var ráð kosið í Íþróttaráð þó að ég hafi skilað auðu en það var bara því að ég hvorki drekk né stunda íþróttir.
Um helgina fór ég svo til Vestmannaeyja vegna fráfalls langömmu minnar sem var orðin 98 ára. Hún var hress næstum fram á síðasta dag og bjó ein þangað til að hún fór á sjúkrahúsið. Ég komst óskaddaður á maga frá Herjólfi aldrei þessu vant vegna þess að ég hafði vit á að sofa báðar ferðirnar. Þegar komið var til Eyja hittust barnabörn, barnabarnabörn og barnabarnabarnabörn (nei þau voru öll sofandi heima í vöggunum sínum) ömmu. Þar sem við gistum þrettán saman í einu húsi fyrstu nóttina, og fjórtán aðra nóttina, var töluvert stress að finna svefnpláss og þó sérstaklega sturtu pláss fyrir allt fólkið þó að þær væru tvær í húsinu. Sundlaugin sem átti að senda okkur börnin í var nefnilega lokuð vegna sundmóts. Athöfnin var falleg og auðvitað stóðu kirkjugestir upp úr sætum þegar þjóðsöngur Vestmannaeyja hljóðaði. Það var líka fallegt að hægt var að bera kistuna beint út í kirkjugarð því hann var hliðin á kirkjunni. Veðrið var líka fallegt aldrei þessu vant. Ég fór með Þóru og Sigurgeiri í fjallgöngu seinna um daginn og um kvöldið var partý þar sem sungin voru gömul og góð íslensk lög í bland við Bowie og Neil Young þótt sönghæfleikarnir væru misjafnir. Við sjómannalögin nutum við mikillar hjálpar Sigurgeirs kærasta Þóru sem gat sungið í fimmtund (held ég).
Daginn eftir var brunaði í land og seinni partinn var svo fermingarveisla á Laugarnestanga.
Í dag fór ég svo með Baldri á "The House of Flying Daggers" sem er Kínversk mynd eftir sama gaur og leikstýrði "Hero" á kvikmyndahátíðinni. Hún var litrík og svolítið öðruvísi en ekkert sérstaklega skemmtileg. Næst er það svo " Der Untergang" um síðustu daga Hitlers.
|