fimmtudagur, júlí 28, 2005

Undanfarið hef ég unnið á Íslandi.
Vinnan er fín. Við vinnum svona fimm af þessum átta tímum sem við fáum borgaða en þá vinnum við náttúrulega vel (nema þegar við erum í sólbaði). Verkstjórinn er 19 ára hnakki og leyfir okkur að slaka á ef við viljum. Hann er fínn. Í hópnum er svo auk hans annar fastráðinn strákur sem hann þekkir og tveir jafnaldra mínir (ekki ykkar) úr MH. Einn er ljóshærðu og heitir Kristinn, hinn ekki. Undanfarið hef ég verið að raka, meðal annars á túni sem Hrafni Gunnlaugssyni þykir mjög vænt um og við eyðilögðum (þar var líka tekinn mynd af mér). Annars er vinnan ekkert sérstaklega spennandi.
Stuttur vinnutími og ekkert heimanám gefa mér mikinn frítíma en honum hefur meðal annars verið varið í að spila risk við Palla, Ernir, Eika og Brynjar en tvo af þeim hef ég varla hitt síðan í Laugalæk. Ég hef líka "endurnýjað" kynnin við Kömmu (og þar með talið fólk sem hún umgengst) og mér finnst eins og einhver hafi spólað aftur um heilt ár. Við ásamt Jóa og Kötlu höfum svo verið að skipuleggja næsta skólaár og kjörtímabil í Mímisbrunni (gettu betur ráðinu). Jói spáir því að ráðið klofni í september en þangað til ætlum við að vera mjög dugleg.
|

laugardagur, júlí 02, 2005

Ég eyddi pólitíska blogginu mínu enda var það misheppnuð tilraun.

Á fimmtudaginn buðum við, nemendurnir á frönskunámskeiðinu, kennurunum okkar út að borða. Við fórum á pítsu/tarte flambe stað á fallegu torgi og kennararnir komu með krakkana sína, en þeir (þær) eru báðir mjög skemmtilegir og afslappaðir. Nemendahópurinn samanstóð af tveimur Dönum, þar á meðal einum sem var á hinu námskeiðinu og ég hef talað svolítið við, ekki þó á dönsku því að ég ræð ekki við að tala nema þrjú tungumál í einu og tveimur Japönum, en ein af þeim var líka á hinu námskeiðinu. Svo var þar líka skemmtilegur Þjóðverji sem reyndi sífellt að fá mig til þess að hneppa frá efstu tölunni á bolnum mínum og kona frá Lúxemborg sem talaði mjög góða frönsku en fjarverandi var rússneska stelpan (sem mætti sjaldan). Þetta var mjög skemmtilegt en við lentum í smá vandræðum með reikninginn. Samkvæmt frönskum siðum sem við þekktum öll frekar takmarkað áttum við að borga undir kennarana og krakkana þeirra fyrst að við buðum þeim. Eftir mikið kossaflens fóru þeir því og skildu okkur eftir með reikninginn. Þjóðverjinn og Lúxemborgarinn (en þeir eru víst hlutfallslega ríkasta þjóð í heimi) heimtuðu að borga meira en við fátæku námsmennirnir svo að ég endaði með því að borga bara 15 evrur sem var örugglega ekki mikið meira en ég borðaði og drakk fyrir.
Ég sleppti því að fara á bar með þeim til þess að drekka bjór því að það tekur klukkutíma að komast heim, sérstaklega þar sem léttlestirnar og strætisvagnar ganga mun sjaldnar á kvöldin. Næsta léttlest átti að koma eftir 4 mínútur svo ég áleit mig heppinn. Hinsvegar var miðasjálfsalinn mín megin bilaður svo ég þurfti að fara í þann sem var hinumeginn. Á undan mér var maður sem tók sér þann lengsta tíma sem ég veit um til að kaupa einn miða á 3 evrur. Hann borgaði allt í 10 sentum sem hann þurfti reglulega að grafa upp úr hinum ýmsustu vösum með miklum leikrænum tilþrifum og um það bil sem að lestin mín var að fara gafst vélin upp á honum og spýtti út öllum sentunum hans. Hann hélt áfram þrátt fyrir árángurslausar tilraunir mínar til að komast að. Fyrst að lestin mín var farin hafði ég hvort sem er korter til stefnu og beið rólegur eftir því að hann yrði búinn. Eftir svona fimm mínútur fékk hann loksins miðan sinn. Þá hóf hann furðulegan dans þar sem hann setti rauðu húfuna sína á milli fóta sér, beygði sig fram og gaf frá sér einhverskonar fruss- eða prumpuhljóð (með munninum). Svo labbaði hann hægt í burtu og stoppaði reglulega til að endurtaka dansinn þangað til að hann hvarf, hann tók samt ekki lestina.

Í dag er síðasti dagurinn minn hérna og ég var á "fête du village" þar sem við fengum okkur tarte flambe (nokkurskonar þunnbotna pítsur með sýrðum rjóma í staðinn fyrir tómatsósu) og hlustuðum á tónlistaratriðin. Fyrst var karíokei sem við vitum öll hvað getur verið skemmtilegt, sérstaklega með fölskum frökkum syngjandi væmin lög á ensku. Næsta atriði var heldur skemmtilegra en það var flugeldasýning, sem var annsi stór miðað við hvað þetta er lítið þorp, og ljósasýning með stórbrotnu klassísku og semíklassísku undirspili. Það var mjög flott sérstaklega hvernig þeir lýstu trén upp í takt við tónlistina. Eftir það hrörnaði það í 80's og Eurovison lög að austan en seinna úr fjarlægð heyrðist mér þó að þeir væru farnir að spila "smoke on the water".

Jæja núna er ég að fara að koma.
|