fimmtudagur, maí 27, 2004

Sumarfríið hefur ekki verið neitt sérstaklega innihaldsríkt en það er þó léttir að ég þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af skólanum.
Á þriðjudaginn kom Ernir í heimsókn og við spjöluðum og spiluðum Worms. Í gær fór ég svo til afa og hann sagði mér frá pabba þegar hann var lítill og flutti nokkur ljóð eftir sig sem hann samdi í bernsku. Svo fór ég á The day after tomorrow með Jóa, Kömmu, Erni, Beggu, Hjálmari og Núma. Myndin var ekki vel leikin og samtölin voru klisjukennd en hamfarirnar voru flottar og hugmyndin skemmtileg. Hún var einnig nokkuð fyndin ef maður horfði á hana með réttu hugarfari og var að einu atriði nokkuð frábrugðin öðrum hamfaramyndum. Í staðin fyrir að Bandaríkin, sem virðast venjulega vera eina landið í heiminum í svipuðum myndum, bjargi heiminum frá geimverum, loftsteini, geislavirkum neðansjávarskrímslum eða einhverju þaðan af verra eru Bandaríkin í þessari mynd að stórum hluta ábyrg fyrir hamförunum og þau þurfa hjálp frá þriðja heims löndum eins og Suður Ameríku sem þau fá (eftir að hafa gefið þeim upp allar skuldir sínar hahaha). Varaforseti Bandaríkjanna sem í upphafi myndarinnar er algjör þverhaus og neitar að bregðast við en snýst svo auðvitað í lok myndarinnar er svo grunsamlega líkur Dick Cheney alvöru varaforseta Bandaríkjanna sem er nátengdur olíuiðnaðinum.
Í dag fórum við Baldur svo og keyptum miða á frumsýningu þriðju Harry Potter myndarinnar og á morgun fer ég í útskriftarveislu Helga Hrafns góðvinar Jóa.

En fyrst ég er nú að tala svona mikið um pólitík er best að ég haldi bara áfram. Þó að ég sé nú ekki fróðasti maðurinn um fjölmiðlalögin sem voru nýlega samþykkt á alþingi, þrátt fyrir hávær mótmæli bæði stjórnarandstöðu og þjóðarinnar, eru þau samkvæmt mínum heimildum ströngustu lög sem nokkurt land sem við berum okkur saman við býr við sem er skrítið því af þeim búum við við minnstan markað. Þó að það sé ekkert að því að setja lög um eignarhald á fjölmiðlum, eða sjálfstæði ritstjórna sem var ekki gert í þessu tilviki, eru þessi lög slæm að því leiti að þeim er beint gegn einu ákveðnu fyrirtæki sem á fjölmiðla sem hafa komið með smá mótvægi gagnvart sjálfstæðisflokksblaðinu mogganum og ríkisútvarpinu sem er í höndum ríkistjórnarinnar (en ekki sjálfstætt eins og BBC tildæmis). Eins og staðan er núna er fjölbreyttni fjölmiðlamarkaðsins því meiri en oft áður og lögunum sem beint er gegn fréttablaðinu og stöð tvö gætu því eyðilagt þetta svo sjálfstæðisflokkurinn (Davíð) geti stjórnað fjölmiðlun í landinu og það er ekki mín hugmynd um fjölbreyttni.
Þetta frumvarp var sett fram í þeim tilgangi að grafa undan fréttablaðinu og stöð tvö sem eru hluti af hinu stóra baugssamsæri ásamt samfylkingunni og nú síðast forsetanum. Svo eru það vinnubröðgin við þetta frumvarp. Í staðin fyrir að ná einhverri sátt um málið sem hefði vafalaust verið hægt því flestir eru á því að það verði að setja einhver lög til að koma í veg fyrir of mikla samþjöppun eignarhalds, eða að stuðla að sjálfstæði ritstjórna varð að drífa þetta frumvarp í gegnum þingið með litlum sem engum breytingum svo að Davíð gæti hefnt sín á Baugi. Þetta eru nú ekki mjög lýðræðisleg vinnubröð en þetta er ekki allt. Nú þegar er búið að samþykkja lögin af stjórninni (þó ekki allri því stór hluti framsóknarflokksins er óánægður með frumvarpið og einn þingmaður hans var á móti og annar sat hjá) kemur til álita að forsetinn notfæri sér stjórnarskrárbundinn rétt sinn til að skrifa ekki undir svo að lögin verði borin undir þjóðina í þjóðarætkvæðagreiðslu því að möguleiki er á því að lögin standist ekki stjórnarskránna og af því að meirihluti þjóðarinnar er á móti lögunum. þá bætti Davíð forsetanum inn í Baugssamsærið sitt og sagði hann vanhæfann sem er skrítið því þinngmenn eru tildæmis aldrei vanhæfir nema sambandi þeirra eigin laun. Svo kemur Hannes Hólmsteinn Gissurason og býr til eitthvað rugl um að þetta meigi bara nota í neyðartilfellum (er það ekki neyðartilfelli þegar meirihluti þingsins samþykkir lög eftir ólýðræðislega meðferð sem meirihluti þjóðarinnar er á móti og gætu stangast á við stjórnarskránna). Svo kemur Davíð maðurinn sem lagði þetta frumvarp fram og segir að það sé hans að ákveða hvort að forsetinn megi neita að skrifa undir lögin sem hann lagði fram. Hvað varð um þrískiptingu valds eða bara lýðræðið.
Verst að vegna fiskaminnis helmings þjóðarinnar verðum við að þola þessa ólýðræðislegu ríkisstjórn næstu þrjú árin vegna þess að Halldór Ásgrímsson lærði að brosa og fólk trúði því að framsóknarflokkurinn væri stjórnarandstöðuflokkur sem hefði ekkert geta gert síðustu átta árin. Eins og mamma sagði "okkur var nær", svo sagði hún líka fleir hluti um Íslensku þjóðina sem ég vil ekki hafa eftir.
Þetta frumvarp er svo bara það nýjasta í langri röð leiðinda sem þessi ríkisstjórn hefur staðið fyrir (en heppilega alltaf langt frá kosningum). Þar má nefna öryrkjafrumvarpið, kárahnjúkavirkjun, útlendingafrumvarpið og einkavinavæðingu ríkisfyrirtækja. Hvað næst heilbrigðis- og menntakerfið. Forsetisráðherran hefur svo haldið öllu samfélaginu í heljargreipum hótanna og fýluskaps sem hann er óspar á. Hann stundar það að hóta prestum, rithöfundum, forstjórum, umboðsmönnum alþingis og forsetanum. Ef einhver er vanhæfur þá er það hann.
|

mánudagur, maí 24, 2004

Ég er kominn aftur frá Svíþjóð.
Þar hitti ég Mána sem var gaman. Í staðin fyrir að vera með einn 19" og annan 17" skjá er hann búinn að skipta þeim 17" fyrir 21" skjá. Herbergið hans lítur út eins og tölvusalur hjá einhverri leyniþjónustu í kvikmynd. Á fimmtudaginn fórum við svo á sænskan bóndabæ með hundi sex köttum og gæfustu kindum sem ég hef séð eða strokið eða haldið á. Einnig keypti ég fjórar Calvin and Hobbes bækur á verði einnar en gleymdi einni á bóndabænum. Svo smakkaði ég líka innbakaða pítsu en ég held að ég haldi mig við flötu gerðina.
Á leiðinni heim lenntum við í alskyns "skemmtilegum" ævintýrum. Við komumst að því kvöldið áður en við áttum að fara að heimferðin var ekki klukkan átta um kvöld heldur eitt næsta dag. Systir mín þurfti að fara á öll bókasöfn í Lundi til að prenta út miðan sinn og þessvegna misstum við af lestinni sem fór beint til kaupmannahafnar en það skipti ekki máli því það var verið að gera við lestarteinana yfir Eyrasundsbrúna. Það olli því að við þurftum að velja á milli þess í Malmö að bíða í klukkutíma eftir rútu til Kastrup og missa af fluginu eða borga 6000 krónur fyrir leigubíl. Við völdum seinni kostinn en á leiðinni datt hjól systur minnar af leigubílnum en skaddaðist sem betur fer ekki mikið (eða fór inn um rúðuna á bílnum fyrir aftan og drap farþegana í honum). Þetta olli nokrum seinkunnum á ferð okkar sem ásamt veseninu við að flytja hjól á milli landa lét okkur næstum missa af fluginu. Systir mín sagði seinna að eftir allt þetta hefði hún hugsað þegar hún loksins komst inn í flugvélina að kannski hefðu örlögin verið að segja okkur eitthvað. En flugvélin sem innihélt ekki bara okkur heldur óvænt líka Kömmu og ömmu hennar hrapaði ekki og ég er kominn heim.
Eftir þetta fórum við í sumarbústað til að slaka á og halda upp á afmælið hennar mömmu þó að veðrið hafi haldið öðrum gestum en okkur frá nema kannski bróður pabba sem kom degi of seint. Svo hændum við ljótan kött að okkur með mjólk og fórum heim. Í dag fórum við Baldur svo niður í bæ og hittum fullt af MH-ingum sem hafa greinilega ekkert annað að gera og leita að Wallace and Gromit og family guy þáttum.
Svo eru það einkunirnar mínar en öfugt við Jóa er ég ekki svo lítillátur að opinbera þær ekki sem er kannski allt í lagi því hann hefur eitthvað til að monta sig yfir en ekki ég. Jú ég fékk 10 í auðveldu dóti eins og skólasókn líkamsrækt og félagsfræði og níu í ensku efnafræði og því miður sögu. Pabbi segir að það fjúki nokkrir hausar í sögudeildinni fyrir þetta, nei nei hann var bara að grínast (vona ég). Svo fékk ég 8 í frönsku sem kemur svo sem ekki á óvart og í Íslensku en öfugt við það venjulega er þetta ekki vegna þess að ég klúðraði stafsetningunni því ég fékk 9,5 á henni, málfræðin var líka að mestu leiti rétt en hinsvegar klúðraði ég bókmenntahugtökunum alveg. Svo er það stærðfræðin sem ég ætla ekki einu sinni að tala um. En þetta er svosem bara mér að kenna (nema kannski sagan, þar kenni ég P-áfanganum um).
Að lokum ættuð þið svo öll að kíkja inn á www.askorun.is og skrifa nafn ykkar og kennitölu.
|

mánudagur, maí 17, 2004

Ég er kominn til Svíþjóðar sem er gaman.
Á föstudaginn var efnafræðipróf sem gekk betur en mér gekk í áfanganum og prófið gildir 70% sem er gott (það var ekki alveg jafn gott að stærðfræðiprófið gildir jafn mikið). Ónefndur innanbúðarmaður í kennaraliði MH sagði mér að ég hefði ekki fengið lægra en 9 í efnafræðiprófinu, sem þýðir líklega að áhyggjur mínar yfir því að ég hefði kannski sleppt blaðsíðu á prófinu (því ég var grunnsamlega fljótur með prófið) voru ekki á rökum reistar.
Á laugardaginn fór ég svo til kóngsins Köbenhavn sem leit nú meira út fyrir að vera ríkisarfans Köbenhavn miðað við allar skreitingarnar sem voru eftir. Þar vorum við drifnir í Eurovision Partý haldið af Íslendingum í Danmörku þar sem horft var á það á Sænska sjónvarpinu þar sem móðurmál þess lands er skiljanlegra en Danskan.
Eftir gistingu og morgunmat á hóteli röltum við Systkinin upp strikið inn á Nyhavn og tókum túr um Kaupmannahöfn. þer sem við höfðum ekkert að gera eftir það nema bíða eftir símtali frá Kömmu gengum við til vinafólks Þóru og þaðan í Dýragarðinn. Þar voru skemmtileg dýr en það vonda við það var að öll stærstu og flottu dýrin eru sofandi lengst inn í stóru búrunum sínum sem eru samt svo lítil að dýrin líta út fyrir að vera frekar vansæl ef ekki geðveik. Þannig að litlu en kannski ekki alveg jafn exotísku dýrin voru jafnvel skemmtilegri. Svo hitti ég Kömmu og frænda hennar á Vesterbrotorv. Alltaf gaman að hitta Íslendinga í útlöndum það er svo Cosmopolitan.
Eftir það fórum við til Svíþjóðar og horfðum á Spy Kids 3D sem er bara gerð í kringum þrívíddina því söguþráðurinn fyrir utan það er bara lítt dulbúinn hegðunaráróður. Í dag vaknaði ég svo aðeins til að leggja mig aftur og vakna til að borða kvöldmat og spila einhvern kubbakastleik með vinum systur minnar. Á morgun vonast ég svo til að hitta Mána.
|

þriðjudagur, maí 11, 2004

Skemmtilegt nýtt útlit á www.blogger.com. Það tók mig reyndar tíu mínútur að finna bloggið mitt en.
Síðan síðast hef ég farið í stærðfræðipróf sem gekk ekkert sérlega skemmtilega en það er búið og gert. Söguprófið gekk heldur betur og ég vonast eftir 10 í því. Það er enn góður sjéns á því að ég geti fengið 10 í félagsfræði og svo er það náttúrulega mæting og íþróttir. Ég spái 9 í ensku og jafnvel í Íslensku og Frönsku ef ég er heppinn en það verður varla lægra en 8. Efnafræðin er svo algjörlega óráðin en ef mér gengur vel og ég drulla mér til að byrja að læra er fræðilegur möguleiki á að ég fái 9-10. Annars hefur þetta verið léleg önn námslega séð.
Eftir efnafræði fer ég til Svínaríkis enda ágætt að losna af þessu sjálfstæðisgrjóti stöku sinnum. Foreldrar mínir eru sannfærðir um að Davíð ætli að gera fréttablaðið og stöð 2 gjaldþrota og herða tökin á ríkisútvarpinu svo hann geti stjórnað allri umfjöllun í landinu, hvað næst, er ekki stjórn yfir upplýsingum helsta takmark einræðisherra. En nóg pólitík í bili því ég veit að allir vinir mínir eru með ofnæmi fyrir pólitík.
Netið bilaði í dag og ég fékk fráhvarfseinkenni af því að geta ekki skoða nýjustu bloggin, baggalút, Dilbert, múrinn og BBC. En úff ég get ekki beðið eftir því að fara til Svíþjóðar, komast í sumarfrí og eignast pening.
|

fimmtudagur, maí 06, 2004

Ég fékk vinnu hjá póstinum
Umsóknin týndist en fannst aftur. Hún var greinilega svona áhrifarík.
|

miðvikudagur, maí 05, 2004

Ég er í prófum.
Íslenska, franska og enska búin, bara stærðfræði, saga og efnafræði eftir. Íslenskan gekk ágætlega en maður veit aldrei með hana, maður heldur að maður kunni hana en svo... Franskan hefði getað gengið betur. Ég hefði tildæmis alveg mátt muna hvernig á að beygja þessar sagnir og hver eignarfornöfnin eru ef eignin er í ft. og eigandinn í et. (ekki segja mér hver þau eru í kommentunum). Enska var svo auðveld eins og venjulega og ekkert að læra undir hana enda gekk þetta bara vel og er allt ólesið. Þá eru öll tungumálin búin.
Ég gerði svo smá könnun á því hverjir eiga afmæli sama dag og ég. Það er Rupert Murdoch fjölmiðlarisi og óvinur BBC, gaman ekki satt. Friðrik IX heitinn konungur Danaveldis og faðir Margrétar drottningar og loksins Douglas Adams höfundur skemmtilegrar bókar.
|