þriðjudagur, júní 27, 2006

Hér fyrir neðan fylgir færsla sem helvítis blogger réð greinilega ekki við í einu lagi svo ég varð að skipta henni í tvennt.
Síðan ég skrifaði þessa færslu hefur reyndar ekki gerst mikið. Mestum tíma mínum hef ég varið í að fegra leiði Jóns Sigurðssonar, Hannesar Hafsteins, Þóru Melsteð, Ingibjargar H. Bjarnason, Benedikts Gröndalss og fleiri þjóðþekktra og kirfilega grafinna einstaklinga. Síðan 17. júní hefur veðrið leikið við okkur brennt framhandleggina mína. Í góðu veðri er kirkjugarðurinn reyndar einn fallegasti almenningsgarður borgarinnar, enda eru þeir ekki mjög margir. Littlir þröngir stígar og fjölbreytilegur trjá- og plöntugróður eins og upplýsingaskiltið tekur fram gera þetta að mjög vingjarnlegum stað. Áður en við hreinsuðum laufinn leit hann þó meira út eins og garðurinn í "The Secrete Garden". Dýralífið er einnig ríkulegt en þar er mikið af köttum og þá sérstaklega einum mjög gæfum sem heitir Brandur og hefu mjög gaman af því að fara innan undir úlpur sumarstarfsmanna. Einnig hefur sést til mjög stórra fiðrilda þar en það er allt óstaðfest.
|

Kosningarnar voru sama dag og útskriftarveisla Jóa en þær voru ekki jafn ánægjulegar. Nú er komið á daginn að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn munu stjórna saman með minnihluta atkvæða að baki sér. Reykjavíkurlistinn var kannski ekkert til að hrópa húrra fyrir undir lokin með nokkur skipulagsklúður á baki sér en einhvernveginn held ég að vinir bílsins muni ekki leggja höfuðáherslu á að skapa þétta og mannvæna byggð. Þrátt fyrir velferðarkosningabaráttu sína býst ég ekki við því að stuðlað verið að minni tekjumun sem þessir sömu flokkar í ríkisstjórn bera ábyrgð á, heldur verður breytt yfir hann með skólabúningum.
Vinnan er líka byrjuð og þótt hún sé kannski ekki sú mest spennandi þá er hún bara nokkuð þægileg. Ég er byrjaður að kynnast vinnufélögunum betur, m.a. hinum MH-ingnum þarna, og vinnutími og samgöngur eru eins og best verður kosið. Verst að það er eitthvað vesen að redda fríi sem ég mun þurfa ætli ég að fara með fjölskyldunni til Korsíku í Júlí.
Talandi um Júlí þá kemur ein af mínum eftirlætishljómsveitum hingað rétt eftir að ég kem heim (fari ég á annað borð) en það er hin skoska Belle & Sebastian sem spilar á NASA og á Borgarfirði Eystra. Systir mín, sem var að kára MA-ritgerðinu sína, ætlar austur en ég held að við Baldur látum okkur NASA nægja.

|

Síðustu vikur hefur verið nokkuð annríkt hjá mér. Til að byrja með þá skrapp ég til London með Jóa, Kömmu og Sindra. Það var mikil lífsreynsla sem ég ætla reyndar ekki að fara mikið nánar út í en Kamma skemmti sér a.m.k. vel. Við sáum líka mikið af London, líklega meira en hinn venjulegi ferðamaður, sérstaklega af neðanjarðarlestarkerfinu (örlítið lengra orð en á ensku). Þrátt fyrir aðdáun mína á Evrópskum borgum og skipulagi þeirra þá held ég að lokaniðurstaðan af ferðinni sé að ég sé ekki mjög mikill heimsborgari. Þvert á móti er ég frekar heimaríkur og vanafastur og ég held að ég hafi allt sem ég þurfi hér á litla Íslandi.
Þegar heim var komið voru lágu einkunnirnar mínar fyrir. Þær voru ekkert til þess að skammast sín fyrir en það verður að játast að fögin sem ég var í lágu flest vel inn á áhugasviði mínu. Jói dúxaði hinsvegar og það kom mér tæpast á óvart. Þar líkur ekki afrekaskrá vina minna því að Jónas öðlaðist nafnbótina meistarinn og varð miljónamæringur (ekki að það þýði mikið hér á Íslandi).

|