þriðjudagur, febrúar 28, 2006

Foreldrar mínir eru loksins komnir heim frá sumarbústaðnum en þau frestuðu heimkomu sinni um einn dag. Sjálfur kom ég heim með afa og ömmu á laugardag.
Það var ekki þverfótað fyrir gestum sem komu og fóru og þokkabót voru Hjónin Einar og Björg, samkennarar pabba og vinafólk í næsta bústað. Það er frekar furðulegt að umgangast kennarana sína í fríi. Þó held ég að vinum mínum þyki það furðulegra en mér.
Er heim var komið fór ég á myndina Capote. Ég vissi ekkert um manninn en ég hafði þó horft á To kill a Mockingbird sem var gerð eftir sögu vinkonu hans sem kom nokkuð fyrir í myndinni. Mér þótti myndin athyglisverð þrátt fyrir það og mjög vel leikin. Capote sjálfur virtist vera hálfgerður skíthæll. Hann virtist vera hrokafullur og hégómagjarn en helst var það hvernig hann stóð að rannsókn málsins og fór með morðingjan vin sinn. Samt hafði ég ákveðna samúð með honum og togstreitunni sem hann átti í.

Sökum óreglu voru engar bollur bakaðar heldur voru þær allar keyptar úr búðum og bakaríum. Saltkjötið og baunirnar höldum við nú samt í. Fyrr skal ég dauður liggja en að sá siður leggist af hjá okkur (þó vonandi reyni ekki á það).
|

miðvikudagur, febrúar 22, 2006

Ég las Beneventum áðan. Það kom út óvenjulega snemma enda eiga að koma út þrjú blöð á ári núna sem er lofsvert framtak. Blaðið var stutt en skemmtilegt og mér fundust greinarnar hin besta ádeila, sérstaklega greinin um fegurðarsamkeppnir sem ég var sammála. Kannski líkaði mér blaðið svona vel því ég var sammála mörgu sem ýjað var að þar, öfugt kannski við fréttapésa (sem mér hefur þó fundist fyndinn á þessu ári).
Eitt þótti mér hinsvegar vanta sem ég vona að verði bætt úr í voreintakinu en það var nokkurra opnu viðtal við fyrirliða Gettu betur liðsins og oddvita Mímisbrunns (það gæti kannski verið gaman að sjá svosem eina mynd af busanum og stelpunni, svona með). Reyndar hef ég fulla trú á því enda lofaði ritstjórnin að næsta eintak yrði helgað félagslífi í meira mæli. Líklega vilja þeir bíða þangað svo þeir geti birt myndir af frækilegum árangri skólans í gettu betur (morfís má alveg fylgja með en það er náttúrulega miklu ómerkilegri keppni) og fjallað um það á heildstæðari hátt.
|
Dagskrá lagningadaga virðist vera frekar rýr í ár og nú er aðeins einn punktur á hvern klukkutíma í spilaherberginu sem er bara á fimmtudegi. Heimur versnandi fer.

Annars er það helst í fréttum að við tókum smá æfingakeppni við Borgó. Hún fór bara vel, ef undan er skilið að hún skuli hafa verið í Grafarvogi. Borgó liðið er samt ágætt og ég hallast að því að þeir vinni Flensborg, þó gæti það orðið tvísýnt.

|

Sagt á einhverju pólitísku spjalli:
"Oh aren't we all SICK TO DEATH of hearing these Human Rights people."

Jú ég er t.d. orðinn mjög þreyttur á tjáningarfrelsinu, sjáið bara hvað er að gerast í Mið-Austurlöndum.

|

laugardagur, febrúar 18, 2006

Ég var að labba um hverfið, sem var mjög gaman því að það var kvöld og allar götur auðar, þegar ég fékk vægt nostalgíuskast. Hugsanlega eftirköst frá legóinu sem ég var að skoða fyrr um kvöldið. Ég var semsagt að ganga niður Rauðalækinn þegar ég rifjaði upp hverjir af kunningjum mínum hefðu búið þar nálægt þegar ég var í grunnskóla. Þá fór ég að hugsa um þá tíma þegar heimur minn takmarkaðist við laugarneshverfið og allir vinir mínir bjuggu á milli Laugarnesvegar, Sundlaugavegar Dalbrautar og Kleppsvegs. Á sumarkvöldum hjólaði ég um hverfið á ljótu hjóli og um daginn lék ég mér við vini mína og frændur í sandkassanum í næsta garði eða rápandi um hverfið, það er að segja þegar mamma rak okkur út, burt frá legóinu og hlutverkaleikjunum. Reyndar hefur þessi færsla ekki mikla þýðingu fyrir flesta lesendur bloggsins því ég kynntist ykkur ekki (almennilega) fyrr en í Laugalæk eða MH.


Þið eruð tákn glataðrar æsku minnar!
|

sunnudagur, febrúar 12, 2006

Ég var að lesa eldri bloggfærslur hjá mér og mér leist ekki alveg á það. Í fyrsta lagi bloggaði ég miklu oftar. Í öðru lagi var ég miklu kaldhæðnari og í þriðja lagi var ég hrokafyllri (nema það falli undir atriði númer tvö). Það er greinilegt að blogginu hefur hrakað í tveimur af þremur tilvikum, eða hvað?
|

fimmtudagur, febrúar 02, 2006

Ég sit heima í veikindum og ætti því að hafa smá tíma til þess að hressa aðeins upp á þetta blogg.
Til að byrja með þá unnum við Kvennó og drógumst á móti MS. Þeir gætu orðið skæðir en við höfum nægan tíma til þess að æfa okkur enda er keppnin ekki fyrr en 16. mars. Ég verð meira að segja orðinn 18 ára þá (sá eini í liðinu).
Síðasta föstudag var 76 ára afmæli afa. Í boði var hangikjöt og tilfallandi meðlæti ásamt þorramat sem var þó tæpast nógu súr. Afi sagði okkur skemmtilega sögu af Vestmanneyingi í seinni heimstyrjöldinni. Hann fór um borð í útlendan bát sem stoppaði í Eyjum til þess að redda sér áfengi því hann taldi bátinn vera franskan. Hann kunni reyndar bara íslensku en samt tókst að sníkja smá af kokkinum. Líklega var það heldur sterkt því daginn eftir vaknaði hann út á rúmsjó og var fastur í frjálsa pólska kaupskipaflotanum það sem eftir var af stríðinu eða næstu þrjú árin. Þegar stríðinu lauk og áhöfnin var kölluð til Portsmouth til þess að sendast heim til Póllands var honum naumlega bjargað af íslenskri konu sem heyrði af því að það væri íslendingur þar. Þegar hann kom aftur heim til Vestamannaeyja hékk en uppi spjald á verkstæðinu hans sem stóð á "kem rétt bráðum".
Ég fór líka á tvær bíómyndir um helgina. Ein var "München" eftir Steven Spielberg sem fjallar um endalausan vítahring ofbeldis og hryðjuverka í deilunni milli Ísraela og Palestínumanna og gerir það mjög vel án þess að halla á annann aðillann. Hin var svo "Fun With Dick and Jane" sem mér þótti bara sæmilega vel heppnuð ádeila á fyrirtækjamenningu Bandaríkjanna og nokkuð fyndin í kaupbæti, þó að Jim Carrey hafi ekki staðið sig neitt frábærlega.
|