þriðjudagur, ágúst 24, 2004

Fyrsti dagurinn í skólanum var rólegur þar sem enginn af kennurunum reyndi að kenna neitt. Borðamálin misheppnuðust hinsvegar aðeins. Allir treystu á einhvern annan að mæta snemma til að ná borði við gluggan svo að það mætti náttúrulega enginn snemma. Það er þó ekki alslæmt þar sem eina fólkið á gamla borðinu okkar voru tvær stelpur sem voru fljótar að forða sér þegar við settumst öll við borðið. Jói og Malli eyddu nokkrum tíma í að reyna að finna önnur borð en það eina sem þeir þekktu einhvern á var stútfullt. Næsta ár skipuleggjum við okkur bara betur og mætum öll klukkan sex.
Annan skóladaginn var smá kennsla sem var bara ágætt. Hinsvegar gleymdi ég stundartöflunni minni svo að ég mætti 10 mínútum of seint í dönsku (kannski af því að hún var í stofu 44 fyrrverandi gluggalausri kompu) og þurfti að setjast aftast undir loftræstistokk sem heyrðist mikið í og hlusta á dönsku í fyrsta skipti í heilt ár, ég hef þó heyrt smá sænsku. Næst kom íslenska þar sem ég gat aðeins montað mig meðan við glósuðum eitthvað um Snorra Eddu og á eftir henni kom franska þar sem ég mismælti mig þegar ég kynnti mig. Einar Júlíusson kenndi mér og Jóa svo Eðlisfræði í síðasta tímanum. Það var reyndar ekkert sem ég kunni ekki fyrir en þetta er náttúrulega fyrsti tíminn, seinna förum við líklega að reikna eitthvað og þó að mér finnist eðlisfræði skemmtileg hef ég ekki beint verið að reikna margar jöfnur mér til dægrastyttingar. Svo var enska í töflu en Jón enskukennari sagði að ég þyrfti ekki að mæta því ég er í P.
|

föstudagur, ágúst 20, 2004

Á morgun fæ ég nýja tölvu með 2,8 GHz örgjörfa. 512 MB innra minni, dvd skrifara, sjónvarpskorti og 19" skjá, pabbi og mamma fá svö gömlu tölvuna mína og borga helminginn. Vandamálið við þetta er að ég er með tölvuna fulla af drasli sem mig langar til að eiga áfram. Til að geta haldið því ætlaði ég að færa það allt yfir á nýja 200 GB harða diskinn minn sem var enn næstum tómur og setja hann svo í nýju tölvuna í viðbót við 160 GB disknum sem fylgir með henni. Ég byrjaði á gagnaflutningnum í gær þegar ég vaknaði og bjóst við að það tæki svona fjóra tíma að færa þessu 110 GB á milli. Þegar ég kom niður fjórum tímum seinna var enn korter eftir svo ég fór bara aðeins í Civilization á meðan. Eftir svona hálftíma var enn korter eftir svo ég ýtti á "cancel" og vonaðist til að geta flutt restina yfir seinna. Þegar ég skoðaði 200 GB diskinn var hinsvegar bara bull á honum. Ég vonaðist til að það hyrfi ef ég endurræsti tölvunna. Þegar ég gerði það krafðist tölvan hinsvegar að laga einhverja "lost links in cluster.......". Samkvæmt útreikningum okkar baldurs þyrfti tölvan að laga 1.800.000 "clusters" sem tók 11 tíma eða frá 5 um dag til fjögur um nótt. En eftir það hélt tölvan bara áfram svo ég einangraði hana vel með koddum og rúmteppum og fór að sofa. Ég hætti í dag þegar tölvan var komin upp í 4.400.000 og hreinsaði allt út af disknum svo ég gæti byrjað aftur.
Amma og afi komu í smá heimsókn í gærkvöld eftir að hafa verið í bíó. Þau fóru á fahrenheit 9/11 og þetta var fyrsta myndin sem amma hafði farið á síðan hún sá Amadeus með hinni ömmu minni. Fahrenheit 9/11 var fyrsta myndin sem amma mín sá í bíó í tuttugu ár. Vel valið. Þau voru bæði mjög hrifin af myndinni og afi kveikti strax á skjá einum til að horfa á Jay Leno gera grín að Bush.
|

þriðjudagur, ágúst 17, 2004

Þessi fyrsta helgi í stóra herberginu mínu er búin að vera annasöm.
Á föstudaginn komu vinir mínir að hjálpa mér að flytja eins og segir frá í síðustu færslu og pabbi og mamma fóru í tveggja daga berjatínslu til Stykkishólms. Á laugardaginn komu Baldur og Gugga með Family Guy en Hjálmar og Jói bætust seinna í hópinn og við nutum saman snilldar þessara þátta. Á sunnudaginn komu Baldur og Gugga aftur ásamt Jóa, Hjálmari og Arnari Braga og við spiluðum tvo leiki af gettu betur spilinu. Í dag kom svo Ernir og við spjölluðum og horfðum á The Return of the King meðan við spjölluðum um hana og annað tengt efni. Vegna þessa gestagangs hefur herbergið hlotið viðhafnarheitið Félagsmiðstöðin Guttormur.
Núna er ég að hlusta á Sovéska þjóðsönginn og þann alræmda þýska þjóðsöng "Deutchland über alles" þökk sé dc sem ég er kominn með aftur. Nú bíð ég bara eftir Bandaríska "Star Spangled Banner" og þá verð ég kominn með fulltrúa allra þriggja höfuð hugmyndafræða tuttugustu aldarinnar. Kommúnisma, Fasisma (já já þetta er þjóðsöngur þýskalands en ekki Nasista en hann hljóðar svona: "Þýskaland, Þýskaland yfir öllum, yfir öllum heiminum". Það verður að viðurkennast að þetta er svolítið svæsið) og Kapítalisma. Úff ekki skrítið að þetta hafi verið blóðugasta öld mannkynssögunnar þegar þrjú aðalkerfin voru hvor öðru verri (þó ekki í þeirri röð sem ég taldi þetta upp í). Já ég er að hugsa um að gera pólitíska bloggsíðu þar sem ég get röflað án þess að skemma meirihluta vina minna andlega. Þar getum við Ernir leikið okkur.
|

laugardagur, ágúst 14, 2004

Síðan ég hætti í vinnunni hef ég óskup lítið gert nema njóta góða veðursins og dunda mér. Það varð tildæmis frekar lítið úr lestrinum sem ég ætlaði að stunda grimmt í þessari viku.
Núna er ég líka fluttur úr litla herberginu niðri í stóra herbergið niðri með mikilli hjálp frá Baldri, Erni, Hjálmari og Jóa. Núna var ég svo að komast að því að netið á tölvuni minni, sem ég fæ bráðum skipt út fyrir nýja, virkar.
|

sunnudagur, ágúst 01, 2004

Verzlunarmannahelgin, þegar "venjulegir" unglingar fara út á land til að drekka sig og dópa dauða (afsakið, ég veit að það eru ekki allar útihátíðir svona). Sem betur fer eru flestir vinir mínir ekki venjulegir unglingar heldur gáfaðir (ekki það að þeir sem fari á útihátíðir séu heimskir) og héldu sig heima, eða fóru með foreldrum sínum sem er svo sem allt í lagi líka.
Mér finnast útihátíðir bara vera svo heimskulegar. Áfengi, dóp og blautt tjald er ekki mín hugmynd um skemmtilega helgi. Það eru kvöld í góðra vina hópi og hugsanlega spil eða góð mynd og ferð á bókasafnið eða í bókabúð hinsvegar.
Svo eru bara fjórir dagar eftir af vinnu í sumar og tvær vikur af fríi eftir af sumrinu. Svo byrjar skólinn. Mamma var hughreystandi í dag og sagði að henni hefðu fundist allar sumarvinnurnar sínar rosalega leiðinlegar og að svona væri lífið eftir skóla.
|