föstudagur, nóvember 19, 2004

Þetta blogg er ekki skrifað á tölvuna mína því hún er í augnablikinu í láni. Það er að segja einhver villuráfandi aumingi braust inn i herbergið mitt og fékk hana lánaða svo hann gæti selt hana fyrir næsta skammti. Þetta er a.m.k. mín kenning en hún gæti allt eins verið röng því viðkommandi gleymdi að spyrja mig áður en hann tók tölvuna mína traustataki. Þessi manneskja á þó hrós skilið fyrir snyrtilega umgengni (sem er meira en hægt er að segja um mig) og fagmannleg vinnubrögð því að það voru engin merki um innbrot eða umgang í herberginu mínu nema gapandi tóm undir skrifborðinu mínu. Lögreglan spurði hvort þjófurinn hefði hreyft við einhverju, skemmt eitthvað eða rifið upp skúffurnar sem stóðu opnar en það ótrúlega er að sóðaskapurinn í herberginu var allur á mína ábyrgð.
Nú er bara að vona að tryggingarnar borgi manni eitthvað brot úr skaðanum og að það ásamt peningunum sem ég mun vinna mér inn í jólafríinu á póstinum (ef ég fæ starfið) nægi til að kaupa nýja tölvu. Reynar hafði ég aldrei ætlað mér að vinna í fríinu en aðstæðurnar krefjast þess.
Ofan á allt saman gubbaði ég heil ósköp í morgun og varð að sleppa skólanum. Sem betur fer virðist ég vera hressari núna.
|