miðvikudagur, júlí 28, 2004

Það hefur nú ekki mikið gerst. Bara vinna vinna og eitthvað fleira ómerkilegt. Helst að það gerist eitthvað um helgar. Á föstudaginn fóru pabbi og mamma norður í útilegu og ég nýtti tækifærið til að fara út að borða og á Shrek 2 með Baldri og Mána. Við fórum á vegamót þar sem ég fékk stærsta smárétt sem ég hef borðað. Myndin var svo mjög skemmtileg. Eftir hana horfðum við á Family Guy hjá Baldri en hann keypti allar seríurnar.
Á laugardaginn komu pabbi og mamma heim eftir að ég hafði farið niður í bæ að hitta Þóru og í heimsókn til afa. Bíll ferðafélaganna hefði víst bilað og þau þurftu að ferja fólkið í bæinn. Svo fór ég á spilakvöld sem leystist reyndar upp og breytist í bíóferð á I Robot (sem ég borgaði fyrir). Þó að Jóa hafi fundist hún léleg varð ég ekki fyrir vonbrigðum. En ég er kannski ekki fullkomlega hlutlaus á vísindaskáldsögur og framtíðarmyndir. Svo horfðum við á The Office heima hjá Jóa. Þetta eru snilldar þættir og minna svolítið á dilbert, stjórinn a.m.k.
Daginn eftir fórum við á borðinu í MH á Pizza Hut en af því að við vorum tólf þurftum við að bíða eftir borði í þrjú korter. Þegar við fengum loksins mat var gosið vont og ísinn kláraðist (engar fríar áfyllingar). En það var gaman að hitta félagana (þá sem ég vinn ekki með). Hjálmar senditík náði svo í okkur og við kláruðum The Office.
Svo eru bara sex vinnudagar eftir og verslunarmannahelgin í millitíðinni. Ekki það að ég ætli að fara neitt það er bara gott að fá frí á mánudegi. Já svo verð ég að drífa mig að fara að læra ef ég ætla að eiga séns í að komast í Gettu betur.
|

fimmtudagur, júlí 15, 2004

Ég er fluttur niður í kjallara. Pabbi og mamma ætla að rífa veggina í gamla herberginu mínu og flytja svo inn í það sjálf (eftir að hafa sett upp nýja veggi). Þó að nýja herbergið mitt sé svipað stórt og það gamla nýtist plássið í því nýja miklu betur og bráðum flyt ég í enn stærra herbergi og fæ svo vonandi nettengingu þangað líka og jafnvel nýjan sófa og sófaborð (fín aðstaða fyrir spilakvöld).
Síðasta vika í vinnunni hefur svo verið annsi auðveld en ég hef verið búinn klukkan eitt eða tvö upp á síðkastið. Annars er frekar lítið að frétta.
|

fimmtudagur, júlí 08, 2004

Bréfaútburður getur verið vannþakklátt starf.
Á föstudaginn var ég að bera út í Ármúla 38 og tók eftir því að eitt bréfið sem ég hafði borið út daginn áður var enn þarna. Það var stílað á fyrirtækið Baugholt 13 í þessu húsi og fyrir neðan stóð "Er ekki hér FÍFl". Ástæðan fyrir pirringi þessarar manneskju er líklega sú að ég hafi borið bréf á sama fyrirtæki út þarna áður en það réttlætir ekki þessi viðbrögð þar sem hann/hún/það ber enga ábyrgð á póstinum og gat alveg látið bréfið vera ásamt því að allt þarna er er alveg einstaklega illa merkt. Getið hverjir fá ekki póstin sinn nema þeir komi sér upp póstkassa bráðlega.
Þegar fólk er ekki að kvarta er það fegið yfir þvi að fá ekki póst, fúllt yfir ruslpósti eða að búa til lélega raðbrandara um það hve illa því sé við gluggapóst.

Foreldrarnir voru í Vestmannaeyjum um helgina svo ég nýtti tækifærið til að bjóða Baldri Arnari og Guggu í flatböku á föstudaginn og til að fara í bíó með Kömmu og Beggu (ég tel Eddu og Alexander ekki með því þau fóru á hasarmynd með "The Rock"). Eftir bíóið ákvað ég svo að fara heim með strætó með stoppi í laugarásvídeo. Í strætó spurði stelpa mig hvort ég hefði verið í FB. Ég neitaði því enda veit ég varla hvað það er. Stelpan settist svo fyrir aftan mig og byrjaði að tala við vinkonu sína á Bresku, fyrst um hvað henni leiddist en svo um mig. Hvort ég væri sætur afhverju hún vildi ekki tala meira um mig og að ég hlyti að vera orðinn skíthræddur við hana. Ég veit ekki hvort hún gerði sér grein fyrir því að ég skildi hvert einasta orð (og var ekki hræddur heldur hlæjandi). Svo fór ég út nálægt laugarásvídeo en hún hélt áfram, hélt ég.
Stuttu seinna birtist hún á laugarásvídeo og tilkynnti mér að hún væri elt af dópistavinum bróður síns því hún skuldaði þeim 500 krónur og bað mig um að fylgja sér til vinkonu sinnar. Til að hughreysta mig sagði hún að þeir væru miklu yngri en ég, bara svona 16 eða 17 ára, hún hélt að ég væri um tvítugt. Núna stóð ég frammi fyrir tvemur slæmum kostum. Annaðhvort að vera eltur af brjáluðum dópistum niður Rauðalækinn eða þurfað að flýja undan ímyndunarveikum stalker með óeðlilegan áhuga á mér. Þetta endaði samt vel. Á meðan ég fékk kvíðakast og tók star trek spólu inn á laugarásvídeo var dópistunum skutlað heim til sín og svo fylgdi ég stelpunni sem reyndist ekki vera geðsjúklingur heim til vinkonu sinnar sem var reyndar ekki heima.
Þegar pabbi og mamma komu heim komst ég svo að því að ég hafði gert stóran skandal. Ég ofaldi humra bróður míns svo að það olli súrefnisþurð í búrinu sem drap allar stærstu humrana svo að gærkvöldinu var eytt í að sturta líkum niður klósettið og skipta um vatn í búrinu.
Já og ég er enn í pabba tölvu.
|