laugardagur, mars 26, 2005

Á laugardaginn fyrir tveimur vikum fór ég með Jóa í bæinn. Við skoðuðum myndasögusýninguna í Hafnarhúsinu. Hún var skemmtileg en einhvernveginn fannst mér eins og við tveir ómerkilegir MH-ingar ættum ekki heima þarna innan um allt hipp listafólkið og menningarvitana sem voru þarna sem boðsgestir (við laumuð okkur bara inn) drekkandi kokteila og skoðandi myndasögur. Jóa fannst þetta fólk vera hræsnarar af því að sumt af því var gamalt og honum finnst að gamalt fólk geti ekki haft gaman að myndasögum og að það hafi bara verið þarna til að sýna hvað það er artý og trendý.

Fyrir svona viku síðan byrjaði páskafríið. Það er ágætt þó að það sé ekki eins skemmtilegt og það ætti að vera. Undir niðri kraumar alltaf sú tilfinning að maður ætti að vera að læra en maður kemur engu í verk.
Á laugardaginn fór ég svo á "The Life Aquatic with Steve Zissou" eftir snillinginn Wes Anderson. Það var yndisleg mynd. Ég elska tilfinninguna sem maður fær þegar maður horfir á myndirnar hans. Þær eru svo "retró" og kvikmyndatakan er einhvernvegin svo skemmtileg og í rauninni er nett súrealísk sviðsmyndin, persónusköpunin, tónlistin og bara allt frábært. Allir eru svo yndislega misheppnaðir og niðurdregnir en samt er myndin mjög kómísk án þess að maður sé alltaf að skella upp úr. Mér leið bara vel af því að horfa á þessa mynd. Alveg eins og þegar ég horfði á "The Royal Tenenbaums".
Á sunnudaginn var svo fermingarveisla með öllu sem því fylgir en maturinn og félagsskapurinn var samt í skemmtilegri kantinum. Á þriðjudaginn var spilakvöld með Erni og Palla og við spiluðum Risk sem Palli vann og Catan sem Ernir vann. Restin af páskafríiun hefur svo bara verið venjuleg rútína af því að vakna seint gera lítið sem ekki neitt, borða, hitta vini og fara seint að sofa. Það sem stendur upp úr er kannski það að ég fór í bæinn og hitti systur mína, fór á úrslitaleikinn á gettu betur með liðinu og Jóa, fór á fund til að skipuleggja kosningaherferð, kenndi sjálfum mér "óðinn til gleðinnar" á píanó og fór svo aftur á bíó í kvöld á "Be Cool" sem var fín. Jói opinberaði svo hommafóbíu sína áðan. Eins gott að ég er ekki kynvillingur.

Páskaegg.
|

laugardagur, mars 12, 2005

Nú er ég loksins orðinn 17 ára.
Þó er ég ekki kominn með bílpróf.
Margir óskuðu mér til hamingju með daginn í skólanum og það var ánægulegt að sjá hve margir mundu eftir því, jafnvel sumt fólk sem ég veit ekki hvað heitir. Ég er samt ekkert móðgaður út í þá sem mundu ekki eftir því. Þrátt fyrir að vera nýskriðinn upp úr veikindum lagði ég samt í það að undirbúa afmælisveisluna mína. Sá undirbúningur fólst meðal annars í því að baka átta pítsur, sem mamma á reyndar mestan heiður af, og að ryksuga herbergið mitt, sem Jói gerði reyndar fyrir mig. Ég ryksugaði þó uppi og tók til niðri sjálfur. Afmælið hófst upp úr átta en flestir mættu örugglega ekki fyrr en rúmlega hálf níu enda voru pítsurnar ekki til fyrr. Allt fór vel fram þrátt fyrir mjög heitan gettu betur leik og ég fékk mjög skemmtilegar gjafir. Þar á meðal nokkra þúsundkalla, gullspreyjaðann hljóðnema á svörtum standi (smá sárabót), Hulk myndasögu, tónlistardiskinn úr "The Royal Tenenbaums" og mitt eigið þema djasslag ásamt Klingonskri orða- og frasabók. Allt mjög skemmtilegar og frumlegar gjafir. Já og kvartlíter af léttmjólk.
Kosningar í nánd.
|

fimmtudagur, mars 03, 2005

Jæja þá er þetta búið.
Þrátt fyrir tapið held ég að við höfum alveg sannað að við séum jafnokar Borgó. Við klúðruðum strategíunni hinsvegar. Það var náttúrulega leiðinlegt að klúðra svona mörgum bjölluspurningum með því að bjalla svona snemma sérstaklega af því að við vissum svo margar af þeim eftir á. Jæja þetta er búið í ár en ég fæ þó tækifæri aftur. Núna vona ég bara að Borgó vinni og ég efast ekki um það enda er það besta liðið eftirstandandi og á fyllilega skilið að vinna loksins, þó að Verzlingar geti svo sem komið á óvart.
Síðasti mánuður er búinn að vera mjög skemmtilegur og það er leiðinlegt að missa bæði Maríu og Jónas. Þegar ég er búinn að ná upp þeim lærdómi sem ég hef vanrækt í vikunni get ég hinsvegar aðeins farið að slaka á og byrjað að einbeita mér að öðrum málum.
|