föstudagur, september 30, 2005

Fondú er mjög skemmtileg en tímafrek leið til þess að borða kvöldmat. Það að maður ræður sjálfur hvað fer ofan í sjóðandi olíupottinn gerði mér kleift að borða næstum bara kjöt, kannski þá eins gott að ég borða svona ekki oft. Þessarar máltíðar naut ég á heimil frænda míns um helgina. Þar horfði ég líka á eitt fyndnasta atriði tvíhöfða, "Dr. Frölich", með Jóni Gnarr sem geðsjúkum, þýskum og hommafælnum geðlækni sem ber nafn með rentu. Seinna sótti Ernir mig og við horfðum á Fargo hjá Baldri. Þetta var í fyrsta skipti sem við sáum hana. Synd því að hún var mjög góð.
Um ræðukeppni föstudagsins vil ég sem fæst orða hafa um en á eftir henni horfði ég á Snatch í góðra vina hópi, aftur reyndar.
Loksins lauk svo kosningaslag Heimdellinga því að lætin í kringum þetta upp í MH gerðu mig þunglyndan, gott dæmi var síðasti fréttapési. Seinni partur vikunar var strax miklu betri og í dag völdum við loksins í Gettu betur liðið. Núna hefjast æfinga af alvöru.
|

miðvikudagur, september 21, 2005

Ég byrjaði helgina á því að fara með Baldri og Mána á rússnesku myndina "Næturvaktina", en ég ætla ekki að nefna hana á Ensku því ég þoli ekki þegar nöfn á myndum frá öðrum löndum en enskumælandi eru þýddar á Ensku, þýðið þær á Íslensku eða haldið ykkur við upprunalega nafnið (hvað er að Diaros de motocicleta eða Der Untergang (en ég skil svosem að þeir vilji ekki nota Mótorhjóladagbækurnar eða Niðurfallið)). Allavega þá var hún ekkert sérstaklega flott eða frumleg og söguþráðurinn var alveg samhengislaus. Eftir það fórum við heim og spjölluðum meðal annars um þetta.
Á laugardaginn fór ég niður í bæ með Jóa og Hödda og fékk mér vonda brauðkörfu á Vegamótum ásamt Amerískum pönnukökum sem ég gat ekki klárað (ekki því hún var vond samt). Þetta var svosem ósköp venjuleg bæjarferð að öðru leyti. Um kvöldið lá leiðin aftur niður í bæ, í þetta skipti með Jóa og Beggu og ég fékk mér aftur að borða, í þetta skipti hvítlaukshamborgara á Prikinu (við lögðum ekki í að fara aftur á Vegamót). Þremur ísum og bið eftir Kömmu og Erni seinna gátum við byrjaða að horfa á Amadeus sem er góð mynd, en ekkert endilega svo sannsöguleg. Það er mjög fallegt hvernig tónlistin (sögupersónanna enda væri ekkert vit í öðru) er notuð til að byggja upp stemingu og Requim eftir Mozart sem er mikið notuð í seinni hlutanum er ótrúlega flott verk.
Sunnudagurinn fór líka í að horfa á mynd en í þetta skipti "Kalla og Súkklaðigerðina" sem er frábær blanda af sýru Tim Burton og svörtum húmor Roald Dahl með hinn frábæra leikara Johnny Depp í aðalhlutverki.
Að lokum er Lovestar mjög skemmtileg ádeila á auglýsinga- fyriritækja og neyslusamfélag okkar tíma með smá blandi af fyndnum en þó ótrúlega trúverðugum vísindaskáldskap. Hún er líka fljótlesin í þokkabót.
|

mánudagur, september 12, 2005

Mímisbrunnur hélt hið árlega inntökupróf fyrir Gettu betur liði MH á fimmtudag og föstudag.
Fyrsta daginn mættu 12 þrátt fyrir nokkuð mikla auglýsingu! Tilhugsunin um að velja tvo nýja meðlimi úr svona litlu úrtaki var ekki mjög aðlaðandi svo við tókum okkur saman í andlitinu og auglýstum grimmt á föstudaginn. Við dreyfðum miðum sem höfðuðu til trygðar MH-inga við skólann sinn og létum öskra tvisvar yfir Matgarð að það væri próf þann daginn. Þær aðgerðir skiluðu mun fleira fólki og prófin kláruðust. Þá vorum við líka komin með mjög góða kandídata sem þarf nú bara að meta og sannfæra um að koma í liðið.

Um helgina fór ég frítt á Strákana okkar þar sem hún var ekki til í bíóinu sem við ætluðum upprunnalega að fara í. Hún var ágætt en ekkert rosalega fyndin. Hljóðið og myndin voru svo eitthvað skrítin. Í gær fór ég aftur á bíó og í þetta skipti á "Broken Flowers" með Bill Murray. Myndin var mjög í anda þeirra mynda sem hann hefur leikið í nýlega: hæg, þunglyndislega, flott og góð. Það var góð tilbreyting eftir hjartastoppandi klippingar kvikmyndasýnishornanna sem voru á undan myndinni.
Næst er það "Charlie and the Chocholate Factory".
|

fimmtudagur, september 08, 2005

Máni er kominn frá Svíþjóð til þess að vinna. Skildustarfsþjálfun er svar Svía við stuttu sumarfríi. Hann fær að sýsla eitthvað með tölvur sem að á líklega vel við hann. Við og Baldur horfðum saman á myndina Crash sem er ágæt lýsing á kynþáttafordómum í samfélaginu þarna vestra (ekki að þeir séu ekki til í austrinu).

Þessi vika hefur verið nokkuð hörð en núna fer eitthvað að slakna á. Við Jói vorum uppteknir við að mála auglýsingu fyrir inntökuprófið á mánudaginn og allur gærdagurinn fór í að undirbúa busadaginn. Básinn okkar var reyndar frekar einfaldur þar sem hann samanstóð bara af borði og bekkjum enda þurftum við bara að láta Busana pakka inn hinum ýmsustu hlutum og hvor öðrum. Við keyptum í leiðinni 20.000 hefti fyrir nemendafélagið. Allt fór vel en ég var frekar þreyttur á tímabili. Busamyndin var ágæt þrátt fyrir lélegt hljóð en Dagur Kári fór á kostum sem illmennið enda sannfærandi sem slíkur. Splatteratriðin með Jakobi og Fanney voru líka skemmtileg og Villa brá stuttlega fyrir með hatt.
|

laugardagur, september 03, 2005

Ég fór á Franz Ferdinand í gær. Gugga og Baldur sóttu mig mjög tímanlega svo að við vorum kominn hálftíma áður en upphitunarbandið byrjaði að spila en þanngað til "skemmti" einhver hryllilegur plötusnúður okkur. Upphitunarbandið Jeff Who var miklu betra en það heillaði mig samt ekkert sérstaklega, kannski bara því að það var engin stemming þar sem fáir voru mættir og enginn kunni lögin. Eftir að þeir höfðu spilað í hálftíma byrjaði hinn einstaklega leiðinlegi plötusnúður aftur að kvelja okkur. Tímann nýtti ég til þess að spjalla við eitthvað af því fólki sem var í kringum okkur og ég þekkti (hálfur MH var þarna). Oddur frændi stóð vinstra megin við mig og ég talaði aðeins við hann, Jónas var fyrir aftan mig ásamt fleiri fyrrverandi MH-ingum og allt í kringum mig voru næstum allir sem ég þekki og þar utan en fleiri sem ég þekki ekki í MH. Undir lokin lá þó við því að áhorfendurnir drægju plötusnúðinn niður en eftir alla þessa bið björguðu Franz Ferdinand honum frá því með því að birtast og byrja að spila.
Þeir spiluð líklega alla plötuna sína ásamt nokkrum nýjum lögum. Mörg þeirra heyrði ég ekki allt of vel en þau voru öll skemmtileg og tvö stóðu upp úr. Það var stemming við öll lögin og ég söng með flestum en mest var þó stemmingin (í kringum mig allavega) í "Take Me Out", "The Dark of the Matinée" og "This Fire" (uppáhalds laginu mínu) þar sem allir hoppuðu með og klöppuðu jafnvel þó að ég hafi ekki verið neitt rosalega framarlega (þó alveg nógu framarlega til að geta notið tónleikanna til fulls).Undir lokin var það sem eftir var af röddinni minni farið að líkjast Andrés Önd, hendurnar á mér voru dofnar af klappi og svitinn búinn að bleyta sig í gegnum skyrtuna mína, á góðan hátt þó

|

Hér birtist hluti af síðustu færslu sem ég gat af einhverjum ástæðum ekki birt.

Þá horfði ég líka á Hótel Rwanda sem er mjög áhrifamikil lýsing á þjóðarmorðunum þar 1994 sem ég, skammarlega, vissi varla um þrátt fyrir dánartölu upp á tæpa miljón. Hún er líka gagnrýni á fyrringu vesturlandabúa gagnvart hörmungum og stríðum í þróunarlöndunum, en við eru uppteknari að því að hefja ný stríð þar en binda endi á þau, því í myndinni neyddist fókið til þess að bjarga sér sjálft meðan undirmannað lið SÞ mátti ekki gera neytt vegna sinnuleysis stórveldanna eftir að búið var að flytja hvíta fólkið í burtu.

|