föstudagur, ágúst 18, 2006

Belle & Sebastian tónleikarnir voru frábærir. Biðin var löng, hitinn óbærilegur og bakið að drepa mig en það var allt þess virði. Bandið er líflegt en einnig heimilislegt á sviðinu og Stuart spjallar mikið við aðdáendur. Þau fengu líka stelpu upp á sviðið til þess að dansa með einu laginu. Auðvitað tók hljómsveitin mest af nýja disknum sem er mjög fínn en ég hefði þó viljað heyra fleiri af mínum uppáhaldslögum. Hinsvegar eiga þau bara svo mikið af góðum lögum að þau geta ekki spilað þau öll. Stemmingin í salnum var fín og jafnvel þó að einhverjir hefðu fengið sér of mikið að drekka þá ollu þeir engum vandræðum.
Núna fer skólinn að nálgast, vinnan er búinn og í millitíðinn er allt brjálað við bókfærslu. Þó ætti ég að finna tíma til þess að sjá Pönkbandið Fjölni spila í fyrsta sinn á menningarnótt.
|

fimmtudagur, ágúst 10, 2006

Fyrir nokkrum vikum síðan fór ég til lítillar franskrar eyju í Miðjarðarhafinu sem heitir Korsíka. Flestir ferðamennirnir eru Frakkar og margir þeirra eiga hús, en það er líka mikið af ítölum og auðvitað einhverjum þjóðverjum. Þrátt fyrir nokkuð stöðugan 35 stiga hita vorum við heppin að vera ekki á meginlandinu þar sem hitinn var allt að 40 gráðum og gamalmenni hrundu niður úr hita.
Gróðurfarslega var þetta nokkuð ný reynsla fyrir mig því að ég hef aldrei áður séð miðjarðarhafsgróður eins og makkí, sölnað gras og litríkar en þurrar trjábreiður sem þekja hinar mörgu kalksteins hæðir og háu fjöll. Reyndar var hitinn frekar lamandi svo við fjölskyldan höfðum ekki orku til þess að gera neitt nema borða og liggja á ströndinni, enda náði ég að klára þrjár bækur á þessum tíu dögum.
|